Hakakrossinn tekinn í „vorhreingerningu“

Hakakrossinn var fjarlægður af kirkjuklukkunni um páskana.
Hakakrossinn var fjarlægður af kirkjuklukkunni um páskana. Skjáskot/Twitter

Umdeild kirkjuklukka í bænum Schweringen í Norður-Þýskalandi hefur tekið nokkrum breytingum eftir að hakakross frá nasistatímanum sem skreytti klukkuna var fjarlægður í leyfisleysi í „vorhreingerningu“.

BBC segir ekki vitað hverjir fjarlægðu hakakrossinn, en þeir sem það gerðu skildu þó eftir miða á dyrum kirkjunnar þar sem að þeir játuðu brot sitt og kváðust hafa viljað hreinsa klukkuna af „óhroða þjóðernissósíalista“.

Markmiðið væri einnig að koma í veg fyrir að gjá myndaðist milli bæjarbúa eftir heitar umræður um klukkuna, en sóknarnefnd kirkjunnar ákvað nýlega að kirkjuklukkan yrði áfram notuð eftir að hafa tímabundið tekið hana úr notkun.

Minjar frá nasistatímanum, eins og kirkjuklukkan, eru viðvarandi deiluefni í Þýskalandi. 

Það var þó ekki fyrr en nýlega sem athygli umheimsins beindist á kirkjuklukkunni í Schweringen. Það gerðist í kjölfar þess að bæjaryfirvöld í Herxheim þurftu að takast á við miklar deilur vegna svo nefndrar „Hitlers-klukku“, en ákveðið var í febrúar á þessu ári að sú klukka yrði áfram í kirkjunni þar sem hún myndi þjóna sem minnisvarði um dökka fortíð Þýskalands.

Hakakrossinn var afmáður af kirkjunni í Schweringen yfir páskahátíðina, en auk þess að fjarlægja hann máðu gerendurnir einnig af hluta af áritun frá 1934 sem var á klukkunni.

Bréfið sem skilið var eftir á kirkjudyrunum var einnig birt í héraðsdagblaðinu Die Harke og þar segjast þeir sem fjarlægðu hakakrossinn hafa með því framkvæmd „vorhreingerningu“. „Ekki bara þorpið var hreinsað heldur líka kirkjuklukkan. Af dúfnaskít og óhroða þjóðernissósíalista, sem enn eftir 80 ár hóta því að mynda gjá milli íbúa,“ sagði í bréfinu.

Með þessu vonist gerendurnir til þess að hafa frelsað kirkjuklukkuna af „tíma sektar og misnotkunar“.

Kirkjupresturinn Jann-Axel Hellwege sagði umræðuna um kirkjuklukkuna hafa valdið áður ófyrirséðum áskorunum fyrir sóknarnefndina. Nú sé til skoðunar hvort að hljómur klukkunnar hafi skaðast við hreingerninguna og hvort kæra eigi málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert