Hvetur fleiri til að bera naloxone

Lögregla í Anne Arundel sýslu í Bandaríkjunum fær hér kennslu …
Lögregla í Anne Arundel sýslu í Bandaríkjunum fær hér kennslu í að gefa fíklum sem tekið hafa of stóran skammt ópíóða naloxone sprautu. AFP

Landlæknir Bandaríkjanna, Jerome Adams, hvetur fleiri Bandaríkjamenn til að hafa naloxone nefúða í fórum sínum. Naloxone er neyðar­lyf sem notað er til að koma í veg fyr­ir að fólk deyi úr ofskömmt­un af morfíni og öðrum ópíóíðalyfj­um og hefur verið töluvert í umræðunni hér undanfarið vegna fjölgunar dauðsfalla af völdum ópíóða.

Segir Adams fleiri þurfa að geta borið kennsl á hættuna á ofskömmtun og bera naloxone til að koma í veg fyrir ofskömmtun.

„Á hverjum degi þá deyja 115 Bandaríkjamenn af of stórum skammti ópíóða. Það er einn á hverri 12 og hálfri mínútu,“ hefur BBC eftir Adams.

Talið er að fleiri látist nú af völdum ópíóða en létust af völdum eyðni er HIV krísan var í hámarki.

Bandaríski landlæknirinn Jerome Adams vill að fleiri beri naloxone nefúða.
Bandaríski landlæknirinn Jerome Adams vill að fleiri beri naloxone nefúða. AFP

42.000 dóu úr of stórum skammti 2016

Rúmlega 250.000 manns hafa látist af ofskömmtun á sl. áratug og á auðvelt aðgengi að lyfseðilsskyldum ópíóðum þar sinn þátt að máli. Árið 2016 létust 42.000 Bandaríkjamenn af of stórum skammti.

Sagði í ráðleggingum sem bandaríska landslæknisembættið birti í dag að þeir Bandaríkjamenn sem eigi á hættu að taka of stóran skammt, eða sem umgangast fólk sem líklegt er til að gera það, geymi naloxone í fórum sínum.  

„Það er orðið tímabært að tryggja að fleiri hafi aðgang að þessu lífsbjargandi lyfi, af því að 77% allra dauðsfalla af völdum of stórs skammts af ópíóðum eiga sér stað utan heilbrigðisstofnanna og meira en helmingur þeirra á sér stað í heimahúsi,“ sagði yfirlýsingu Adams.

„Að kunna að nota naloxone og hafa það í seilingarfjarlægð getur bjargað lífi,“ sagði hann og kvað fjölda dauðsfalla af völdum ópíóða hafa tvöfaldast síðasta áratuginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert