Lögreglumenn í New York skutu svartan mann til bana í Brooklyn í gær. Lögreglan fékk tilkynningu um að maðurinn væri með byssu en í ljós kom að hann var með járnstöng. Hann glímdi við geðsjúkdóm og segja aðstandendur að lögreglunni hafi verið kunnugt um það.
Í frétt New York Times um málið segir að lögreglunni hafi borist þrjár tilkynningar um manninn og að fimm lögreglumenn hafi verið kvaddir á vettvang. Samkvæmt tilkynningunum var maðurinn sagður vopnaður byssu, að því er lögreglan sagði á blaðamannafundi vegna málsins í gær.
Lögreglustjórinn sagði á blaðamannafundinum að maðurinn hefði tekið sér skotstöðu gegnt lögreglumönnunum og beint hlut sem hann hélt á að þeim. Fjórir lögreglumannanna hófu skothríð og skutu samtals tíu skotum.
Fórnarlambið var 34 ára og hét Saheed Vassell. Faðir hans segir í viðtali við New York Times að sonur sinn hafi glímt við geðsjúkdóm og hafi verið lagður inn á sjúkrahús vegna hans ítrekað í gegnum árin. Hann hafi áður komið við sögu lögreglu. Vassell var logsuðumaður.
Faðir hans segist aldrei hafa vitað til þess að hann hafi miðað hlut eins og byssu á fólk. Nágrannar hans segja að hann hafi stundum staðið úti á götuhorni og betlað. Þá hafi hann einnig tekið að sér viðvik fyrir verslunareigendur í hverfinu. Hann er sagður þekktur fyrir að tína hluti upp af götunni og leika sér að þeim eins og leikföngum.
Einn nágranni hans segir að lögreglan hafi vitað um geðsjúkdóm hans. Hann segir að lögreglan hefði því átt að hafa upplýsingar um hann, hefði átt að þekkja hann nægilega vel til að skjóta hann ekki til bana.