Bræður sem myrtu foreldrana sameinast ný

Bræðurnir brustu í grát þegar þeir hittust aftur.
Bræðurnir brustu í grát þegar þeir hittust aftur. Mynd/Skjáskot af vef BBC

Bandarískir bræður sem komust í heimsfréttirnar fyrir tæpum þremur áratugum fyrir að hafa myrt foreldra sína með hrottalegum hætti hafa nú sameinast á ný bak við luktar fangelsisdyr.

Bræðurnir, Erik Menendez, sem nú er 47 ára, og bróðir hans, hinn fimmtugi Lyle Menendez, afplána báðir lífstíðardóm fyrir morðið á foreldrum sínum sem þeir skutu til bana á heimili þeirra í Beverly Hills árið 1989. BBC greinir frá.

Bræðurnir féllust í faðma og brustu í grát þegar þeir hittust í fyrsta skipti eftir 20 ára aðskilnað í fangelsinu í San Diego á miðvikudag. Þeir geta nú átt samskipti sín á milli líkt og aðrir fangar sem afplána þar sína dóma, eftir að Lyle var fluttir þangað úr öðru fangelsi.

Bræðurnir hafa verið aðskildir síðan árið 1996, en þá var talið að þeir myndu reyna að flýja fangelsið saman. Lyle var því fluttur annað.

Saksóknari í málinu taldi að þeir hefðu myrt foreldra sína til að erfa miklar eignir þeirra, en lögmaður bræðranna sagði að um hefndarmorð hefði verið að ræða vegna kynferðislegrar misnotkunar. Ekki tókst þó að sanna að bræðurnir hefðu orðið fyrir slíku ofbeldi.

Faðir bræðranna, sem var framkvæmdastjóri í Hollywood, var skotinn sex sinnum á stuttu færi með haglabyssu sem bræðurnir höfðu keypt nokkrum dögum fyrir morðið. Móðir þeirra var skotin tíu skotum. Þegar lögreglan kom á vettvang sögðu bræðurnir að þeir hefðu komið að foreldrum sínum látnum. Lögreglumaður sem kom á vettvang lét hafa eftir sér í fjölmiðlum að hann hefði á 33 ára ferli sínum aldrei séð jafn hrottalega aðkomu.

Bræðurnir voru svo handteknir eftir að kærasta sálfræðings sem Erik hafði gengið til lét lögreglu vita að hann hefði hótað unnusta hennar líkamsmeiðingum. Upptökur úr sálfræðitímum voru síðar útilokaðar frá réttarhöldunum, en þar ræddi Erik morðin.

Réttarhöld yfir bræðrunum hófust árið 1993 en í tvígang komst kviðdómur ekki að einróma niðurstöðu og því varð að rétta aftur í málinu. Réttarhöldunum lauk því ekki fyrr en árið 1995.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert