Hafna ásökunum um efnavopnaárás

Skjáskot úr myndbandi sem þjóðvarðlifar í Douma sendu frá sér, …
Skjáskot úr myndbandi sem þjóðvarðlifar í Douma sendu frá sér, sýnir sjáflfboðaliða hlúa að börnum sem sögð eru hafa orðið fyrir eiturvopnaárás. AFP

Rússneska varnarmálaráðuneytið hafnar því alfarið að efnavopn hafi verið notuð á borgina Douma í Ghouta-héraði í Sýrlandi, að því er rússneska Interfax fréttastofan greinir frá.  Sagt var frá því í morgun að  70 manns hið minnsta hefðu  far­ist í efna­vopna­árás á borg­ina, sem er síðasta borg­in í héraðinu sem er enn á valdi upp­reisn­ar­manna.

„Við höfnum þessum upplýsingum alfarið,“ hefur Reuters fréttastofan eftir Yuri Yevtushenko yfirmanni rússnesku sveitanna í Sýrlandi. „Við tilkynnum hér með að við erum tilbúin að senda inn rússneska sérfræðinga í efnavopna, lífefnavopnaárásum og geislavirkni til að safna gögnum um leið og Douma hefur verið frelsuð úr höndum uppreisnarmanna. Það mun sanna  innihald þessara uppspunnu ásakana,“ sagði hann.

Reuters segir 49 manns hið minnsta hafa farist í árásinni og Washington Post hefur eftir sýrlenskum læknum og hjálparstarfsfólki að tugir manna hafi farist. Þá hafi verið komið með rúmlega 500 manns á heilsugæslustöðvar með einkenni sem benda til efnavopnaárásar að því er blaðið hefur eftir SAMS, Syrian-American Medical Society samtökunum. Er fólkið sagt sína merki andnauðar. Froða hafi komið úr munni margra og andardráttur þeirra verið „klór-legur“

Segja uppreisnarmenn breiða út falsfréttir

Fjöl­miðlamiðstöðin í Ghouta, Ghouta Media Center sem er á bandi upp­reisn­ar­manna, sagði á Twitter að rúm­lega 75 manns hefðu „kafnað“ og að um þúsund manns til viðbót­ar hefðu orðið fyr­ir áhrif­um af hinni meintu árás.

Segja þau efna­vopn­un­um hafa verið varpað úr þyrlu með tunnu­sprengju sem hafi inni­haldið sa­rín taugagas.

Sýrlensk stjórnvöld hafna því einnig að hafa staðið fyrir slíkum árásum og segja uppreisnarmenn breiða út falsfréttir.

Tyrknesk stjórnvöld lýstu því hins vegar yfir fyrir skemmstu að „sterkur grunur“ léki á að Sýrlandsstjórn stæði að baki árásinni og Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur fordæmt árásina.

Ekkert sem getur réttlætt efnavopnanotkun

Þá fordæmdi Frans páfi notkun efnavopna á Sýrlandi er hann ræddi við mannfjöldann á Sankti Péturstorgi í dag. „Það er hræðilegar fréttir sem okkur berast frá Sýrlandi að tugir fórnarlamba, margir þeirra konur og börn ..., Svo margir verða fyrir áhrifum eiturefnanna í þessum sprengjum,“ sagði páfi.

„Það er ekki til gott stríð eða slæmt stríð og ekkert, ekkert getur réttlætt notkun slíkra gjöreyðingartækja gegn varnarlausum íbúum.“

Þá er António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagður vera áhyggjufullur yfir ásökunum um að efnavopn hafi verið notuð gegn íbúum Douma, en að Sameinuðu þjóðirnar hafi ekki getað staðfest þessar fréttir. 

Hermenn Sýrlandsstjórnar hafa undanfarið reynt á ná Douma á sitt …
Hermenn Sýrlandsstjórnar hafa undanfarið reynt á ná Douma á sitt vald. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert