Fara í hópmálssókn gegn ópíóðaframleiðendum

Læknadóp er vinsælt í Bandaríkjunum og stefnir nú í eina …
Læknadóp er vinsælt í Bandaríkjunum og stefnir nú í eina stærstu hópmálsókn þar í landi gegn lyfjaframleiðendum vegna skaðans sem ópíóðafíkn hefur valdið. mbl.is/Golli

Ópíóðafaraldurinn hefur haft áhrif á líf margra í Vinton-sýslu í Bandaríkjunum. Kennarar kaupa skó fyrir börn ópíóðafíkla sem mæta í skólann í samanlímdum skóm. Þeim, sem deyja af völdum of stórra skammta, fer fjölgandi og fósturbarnakerfið er að springa. Það sama á við um fangelsin. 

Kostnaður sýslunnar við að annast börn fíkla og kostnaður vegna fangelsunar þeirra nemur um 25% af árlegum fjárlögum sýslunnar og það er meira en þau ráða við. Nú telja yfirvöld í ríkinu tímabært að einhver annar borgi reikninginn – lyfjafyrirtækin.

„Það er næstum eins og það hafi verið ráðist á okkur,“ segir Lily Niple sem ánetjaðist ópíóðum sem hún fékk uppáskrifaða frá lækni. Hún náði völdum á fíkninni og hefur nú verið hrein í rúm tvö ár. „Það er eins og það væri verið að nota fólk hér. Það var bara vanræksla og fullkomin vanvirðing gagnvart framtíðinni.“

Ein flóknasta málssókn sögunnar

Vinton er ekki eina sýslan þar sem yfirvöld eiga í vanda og þar sem lögregla og sjúkraliðar berjast við að halda fíklum á lífi. Stærsta baráttan gegn ópíóðafaraldrinum fer hins vegar að sögn Washington Post þessa stundina fram í alríkisdómshúsinu í Cleveland, þar sem hundruð dómsmála eru nú sótt gegn lyfjaiðnaðinum. Segir blaðið borgir, sýslur, ættbálka frumbyggja og verkalýðsfélög hafa sameinast um málshöfðun sem kunni að vera stærri en nokkuð sem dómskerfið hefur áður tekið til umfjöllunar.

Vinton-sýsla og hundruð annarra byggðarlaga víðs vegar um Bandaríkin höfða nú mál gegn fyrirtækjunum sem framleiddu og dreifðu þessum ávanabindandi verkjalyfjum. Málshöfðunin nær til birgja víðs vegar um dreifikeðjuna og segja sækjendur í málinu að hið umfangsmikla net ópíóðaiðnaðarins þurfi að greiða fyrir skaðann sem það hefur ollið.

„Þetta eru líklega ein flóknasta málssókn í sögu landsins,“ segir Paul J. Hanly Jr., einn lögfræðinganna í málinu, sem hefur verið líkt við málshöfðanir gegn tóbaksframleiðendum og söluaðilum sígarettna.

Beinast gegn framleiðslukeðjunni í heild

Sumir lögfræðinganna sem unnu að málaferlunum gegn tóbaksframleiðendunum eru nú að vinna að ópíóðamálshöfðuninni. Ákærurnar eru margvíslegar, sem og kröfurnar og þau fyrirtæki víðs vegar í sölu- og framleiðslukeðjunni sem þær beinast að.

Sumir segja fyrirtækin hafa skapað plágu með framleiðslu sinni, aðrir segja blekkjandi markaðssetningu hafa leitt til faraldurs og enn aðrir segja neytendalöggjöf hafa verið brotna.

Þá segja sumir sölukeðjuna alla, allt frá framleiðendum niður í apótekin sem selja lyfin, jafngilda glæpafyrirtækjum.

Sumar ákærurnar beinast gegn apótekunum og enn aðrar málssóknir eru höfðaðar fyrir hönd barna sem eiga mæður sem eru ópíóðafíklar.

„Við höfðum málið af því að við teljum fyrirtækin þurfa að bera ábyrgð á langtímamarkaðssetningu sinni sem raunverulega hefur skapað þessa stöðu og hefur alið á misleiðandi viðhorfi til lyfjanna sem aðferðar til að takast á við verki,“ segir Edward N. Siskel, sem fer fyrir Chicago-málshöfðuninni.

„Við viljum líka tryggja iðnaðurinn breyti hegðan sinni.“

Byrjaði að nota ópíóða sem partílyf

Meira að segja dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur lagt inn beiðni um að fá að taka þátt í umræðunum sem „vinur réttarins“. Hefur Jeff Sessions sagt ráðuneytið munu reyna að fá kostnaðinn vegna fíkniefnakrísunnar endurgreiddan, þar sem kostnaður alríkisyfirvalda sé nú orðinn umtalsverður.

Ekki búa nema um 13.000 manns í Vinton-sýslu og árið 2012 voru þar að meðaltali gefnir út 113,5 ópíóðaskammtar á hvern íbúa.

Lily Niple var ein þeirra sem notaði lyfin. Hún segist hafa byrjað að nota þau í partíum um helgar þegar hún var í háskóla og á meðan hún vann fyrir sér á bar. Hún hætti svo að nota þau þegar hún varð ólétt í fyrsta sinn, en byrjaði aftur fljótt eftir að dóttir hennar fæddist.  Hún neytti svo ópíóða í gegnum næstu tvær meðgöngur, en fékk aðstoð til að hætta þegar fjórða barnið var á leiðinni.

„Ég áttaði mig á því að ég var í einstakri stöðu  sem gat haft áhrif á löngun mína til bata," segir hún. 

Lögreglumenn í Anne Arundel-sýslu læra hér að nota naloxone til …
Lögreglumenn í Anne Arundel-sýslu læra hér að nota naloxone til að bjarga fíklum frá of stórum skammti. AFP
Heróín-notandi í New York gerir sig kláran til að sprauta …
Heróín-notandi í New York gerir sig kláran til að sprauta sig. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert