Snemma í morgun var gerð árás á bækistöðvar sýrlenska flughersins í miðhluta landsins. Fjórtán létust í árásinni, m.a. íranskir hermenn sem styðja ríkisstjórn Bashars al-Assad.
Sýrlenskir ríkisfjölmiðlar sögðu fyrr í morgun frá því að mannfall hafi orðið og að einhverjir hefðu særst. Það voru svo eftirlits- og mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights sem greindu frá fjölda fallinna.
Herstöðin er í Homs-héraði í miðhluta Sýrlands og er kölluð T-4 eða Tiyas-flugvöllur.
Vitað er að bandamenn Sýrlandshers í stríðinu, m.a. Rússar, Íranar og skæruliðar Hezbolla-hreyfingarinnar halda til í herstöðinni.
The Observatory eru með net heimildarmanna vítt og breitt um Sýrlands. Samtökin segjast ekki geta staðfest hver beri ábyrgð á árásinni.
Ísraelsher gerði árás á þetta sama svæði í febrúar en Ísraelar hafa ítrekað gert árásir í landinu frá því að stríðið braust þar út fyrir rúmum sjö árum. Talsmaður Ísraelshers vildi ekki tjá sig um árásina nú.
Frakkar segjast ekki bera ábyrgð á árásinni er AFP-fréttastofan bar málið undir talsmann hersins þar í landi. CNN segir varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna einnig hafna því að hafa staðið að árásinni.
Í gær var gerð efnavopnaárás í borginni Douma í Sýrlandi og talið er að í það minnsta 70 hafi fallið og hundruð manna særst. Árásin hefur vakið mjög hörð viðbrögð víða um heim.
Donald Trump Bandaríkjaforseti fordæmdi eiturefnaárásina í gær og sagði Rússar og Íranar bæru ábyrgð á því að styðja „skepnuna Assad“.
Rússar segja að Ísraelsher beri ábyrgð á flugskeytaárásinni á bækistöðvar sýrlenska fluhersins í morgun. Forseti Írans, Hassan Rouhani, segir að Bandaríkjamenn muni sjá eftir því ef þeir brjóta ákvæði kjarnorkuvopnasamningsins og að slíku yrði þá svarað „innan viku“.
„Við munum ekki verða fyrri til að brjóta ákvæði samninsins en þeir skulu vita það að þeir eiga eftir að sjá eftir að brjóta hann,“ sagði Rouhani á ráðstefnu í Teheran í dag. „Við erum betur undirbúnir en þeir halda og þeir munu sjá að ef þeir brjóta samninginn þá verður því svarað á innan við viku.“