Enn eitt hneykslið skekur Facebook

Mark Zuckerberg mun mæta fyrir tvær þingnefndir í Bandaríkjunum í …
Mark Zuckerberg mun mæta fyrir tvær þingnefndir í Bandaríkjunum í vikunni. AFP

Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, á von á hvössum spurningum er hann mætir fyrir þingnefndir í vikunni. Á morgun mun hann svara spurningum þingmanna í nefnd öldungadeildar þingsins og strax daginn eftir þarf hann að sitja fyrir svörum hjá nefnd fulltrúadeildarinnar. Hann hefur verið boðaður fyrir nefndina til að svara spurningum um öryggi gagna sem Facebook geymir og fleiri málefni sem brenna á þingmönnum og öðrum og varða samfélagsmiðilinn vinsæla. 

Zuckerberg mun þurfa að svara því hvernig það gat gerst að gögn um 87 milljónir notenda komust í hendur gagnafyrirtækisins Cambridge Analytica og voru svo notuð í þeim tilgangi að hafa áhrif á úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2016.

Í gær tilkynnti Facebook að samningi hefði verið rift við annað gagnafyrirtæki, hið bandaríska Cubeyou, eftir að sjónvarpsstöðin CNBC sagði frá því að þar á bæ hefðu gögn Facebook verið notuð með sambærilegum hætti og hjá Cambridge Analytica.

„Þetta eru alvarlegar ásakanir og við höfum rekið CubeYou frá Facebook á meðan við rannsökum þau,“ sagði talsmaður Facebook í samtali við AFP-fréttastofuna. CubeYou hefur m.a. lagt „próf“ fyrir notendur Facebook en er svo talið hafa geymt gögnin sem aflað var með þeim hætti. 

Bandarískir þingmenn hafa gefið í skyn að þeir ætli að vera harðir gagnvart Facebook og öðrum miðlum á netinu vegna mála sem þessara. Vilja þeir sumir hverjir að lög verði sett til að tryggja réttindi notenda samfélagsmiðla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert