87 milljónir Facebook-notenda fá að vita í dag hvort upplýsingum um þá, sem safnað er af samfélagsmiðlinum, hafi verið deilt með fyrirtækinu Cambridge Analytica. Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Guardian.
Facebook hefur tilkynnt að umræddir notendur myndu fá skilaboð með ítarlegum upplýsingum í fréttaveitum sínum á Facebook. Flestir þeirra notenda sem um ræður, eða um 70 milljónir manna, búa í Bandaríkjunum.
Talið er að upplýsingar um rúmlega eina milljón manna í Bretlandi hafi einnig farið til Cambridge Analytica og sama er að segja um Filippseyjar og Indónesíu sem og upplýsingar um rúmlega 300 þúsund Ástrali.
Þá munu allir 2,2 milljarður Facebook-notenda fá tilkynningu þar sem fólk fær upplýsingar um það hvaða öpp þeir nota og hvaða upplýsingar þeir hafi deilt með þeim. Fólk mun geta slökkt á einstökum öppum eða lokað á að upplýsingum sé deilt með þriðja aðila.