Bandaríska alríkislögreglan FBI gerði í dag húsleit á skrifstofu Michael Cohen, lögfræðingi Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Leitin var gerð eftir tilvísun þess efnis frá Robert Mueller, sem stýrir rannsókn sérstakrar nefndar á meintum afskiptum Rússa af kosningabaráttu forsetans árið 2016.
Starfsmenn rannsóknarinnar í New York lögðu hald á trúnaðarupplýsingar um það sem hefur farið fram hjá Cohen og skjólstæðingum hans. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá lögmanni Cohen eftir húsleitina.
Fjölmiðlar vestanhafs greina frá því að einnig hafi verið lagt hald á gögn sem tengjast 130 þúsund dollara greiðslu sem Cohen greiddi til klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels fyrir forsetakosningarnar haustið 2016. Daniels kveðst hafa átt í stuttu ástarsambandi við forsetann árið 2006, eftir að hann hafði kynnst og gifst núverandi eiginkonu sinni, Melaniu Trump.