Berbrjósta mótmælandi reyndi að ráðast að Bill Cosby þar sem hann kom í réttarsal í dag. Ný réttarhöld yfir leikaranum hefjast í dag en hann er sakaður um að hafa misnotað Andreu Constand kynferðislega árið 2004.
Fyrri réttarhöld í málinu voru ómerkt eftir að kviðdómendur gátu ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu.
Lögregla í borginni Fíladelfíu leiddi mótmælandann burt en hún hafði skrifað Women's Lives Matter“ á bringu og maga. Auk áðurnefndrar konu voru á annan tug mættir fyrir utan dómsalinn til að sýna Constand stuðning.
Constand sakaði Cosby um að hafa byrlað henni ólyfjan og misnotað hana árið 2004. Cosby hefur neitað þessum ásökunum og segir að Constand hafi samþykkt að stunda með honum kynlíf. Hátt í 60 konur hafa sakað Cosby um að hafa brotið gegn sér.