Forstjóri og stofnandi Facebook, Mark Zuckerberg, segist bera persónulega ábyrgð á þeim mistökum sem urðu til þess að upplýsingar um milljónir manna láku frá notendum samfélagsmiðilsins til breska fyrirtækisins Cambridge Analytica, sem starfaði fyrir kosningaskrifstofu Donald Trump.
Þetta kemur fram í greinargerð sem Zukerberg sendi til þingsins í gær. Þar viðurkennir hann að hafa verið of óraunsær til þess að gera sér grein fyrir því hvernig væri hægt að misnota þær upplýsingar sem sem rúmlega tveir milljarðar notenda Facebook gefa á miðlinum.
Þess er vænst að Zuckerberg fái heldur betur að finna til tevatnsins síðar í dag þegar hann mætir fyrir þingnefnd á Bandaríkjaþingi.
Zuckerberg ber vitni fundi þingnefnda í báðum deildum Bandaríkjaþings, í dag og á morgun. Hann átti í gær einkafundi með nokkrum þingmönnum í gær.
John Kennedy, öldungadeildarþingmaður repúblikana, segir að það sé ekki nóg fyrir forstjóra Facebook að biðja afsökunar á mistökunum og að viðurkenna ábyrgð. Heldur vonist hann til þess að Zuckerberg greini frá því hvernig komið verði í veg fyrir að slíkar persónulegar upplýsingar komist í umferð. „Það sem ég óttast mest er að Facebook geti það ekki.“
Í greinargerðinni segir Zuckerberg að það hafi verið mikil mistök að hafa ekki gert sér grein fyrir ábyrgðinni og það hafi verið hans mistök sem hann biðji afsökunar á.
„Ég stofnaði Facebook, ég rek hana og ég ber ábyrgð á því sem gerist þar,“ segir í greinargerðinni.