Forstjóri og stofnandi Facebook, Mark Zuckerberg, bað bandaríska þingmenn afsökunar í dag þegar hann kom fyrir þingnefnd á Bandaríkjaþingi.
Zuckerberg ber vitni á fundi þingnefnda í báðum deildum Bandaríkjaþings, í dag og á morgun. Þar mun hann svara fyrir aðgerðir Facebook vegna þess að upplýsingar um milljónir manna láku frá notendum samfélagsmiðilsins til breska fyrirtækisins Cambridge Analytica, sem starfaði fyrir kosningaskrifstofu Donald Trump.
Zuckerberg endurtók það sem hann hafði áður sagt; baðst afsökunar og sagðist sjálfur bera ábyrgð á málinu.
„Það mun taka einhvern tíma að fara í gegnum allar breytingarnar sem við þurfum að gera en ég er staðráðinn í því að við munum gera þetta rétt og vel,“ sagði Zuckerberg.