Forstjóri og stofnandi Facebook, Mark Zuckerberg, kom fyrir þingnefnd á Bandaríkjaþingi í kvöld þar sem hann baðst afsökunar á því hvernig Facebook hefur tekið á vaxandi reiði eftir að ljóst var að fyrirtækið lak upplýsingum um milljónir notenda til breska fyrirtækisins Cambridge Analytica, sem starfaði fyrir kosningaskrifstofu Donald Trump.
Zuckerberg lofaði breytingum en upplýsingar um 87 milljónir Facebook-notendur var deilt með Cambridge Analytica.
„Ég stofnaði Facebook, ég rek fyrirtækið og ber ábyrgð á því sem gerist hér,“ var meðal þess sem Zuckerberg sagði þar sem hann sat fyrir svörum hjá þingnefndinni.
Hann segir að Facebook hafi talað við Analytica og þá hafi komið fram að þeir myndu ekki nota gögnin og þeim hefði verið eytt. „Við litum þá á að málinu væri lokið. Eftir á að hyggja voru það greinilega mistök en við hefðum ekki átt að taka mark á orðum þeirra,“ sagði Zuckerberg og bætti við að þau mistök muni ekki gerast aftur.
Zuckerberg svaraði ekki og sagði það trúnaðarmál hvort Robert Mueller, sem stýrir rannsókn sem snýr að meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum árið 2016, hefði rætt við einhvern af yfirmönnum Facebook.
„Gætirðu sagt okkur á hvaða hóteli þú gistir síðustu nótt? Gætirðu sagt okkur nöfnin á þeim sem þú hefur sent skilaboð í vikuni?“ spurði Dick Durbin, öldungadeildarþingmaður demókrata.
„Ég myndi ekki vilja gera það hér opinberlega,“ svaraði Zuckerberg.
„Ég held að þetta sé mergur málsins; réttur fólks til einkalífs, skorður á því og hversu mikið af því þú gefur frá þér þegar sagt er að þú sért að tengja saman fólk um heim allan,“ sagði Durbin. Facebook er undir miklum þrýstingi að bæta meðferð sína á persónuupplýsingum notenda.