Rússar hvetja Bandaríkin til þess að forðast hernaðaríhlutun í Sýrlandi vegna efnavopnaárásar sem þar var gerð um helgina. Sendiherra Rússa hjá Sameinuðu þjóðunum varar við afleiðingum slíkrar íhlutunar.
„Ég sárbæni ykkur enn einu sinni um að stilla ykkur um að framkvæma það sem þið eruð að undirbúa,“ sagði Vasily Nebenzia, sendiherra Rússlands hjá SÞ, í gærkvöldi eftir að Rússar beittu enn einu sinni neitunarvaldi til þess að koma í veg fyrir rannsókn á efnavopnaárásinni í Douma um helgina. Kínverjar sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Leiðtogar vestrænna ríkja hafa hins vegar ákveðið að vinna saman að því að ná þeim sem bera ábyrgð á árásinni í Douma.
Bandarísk yfirvöld hafa hins vegar ekki hvikað frá hótunum sínum um að svara efnavopnaárásunum í Sýrlandi þrátt fyrir áhrifin sem það gæti haft á samskiptin við Rússa.
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að hann ætli sér að láta forseta Sýrlands, Bashar al-Assad, og jafnvel bakhjarla hans, Írani og Rússa, gjalda fyrir efnavopnaárásina.
Að sögn björgunarfólks létust yfir fjörutíu manns í úthverfi Damaskus, Douma, í árásinni aðfaranótt laugardags.
Bandaríkin, Bretar og Frakkar eru sammála um að árásin beri öll merki þess að Assad hafi fyrirskipað árásina líkt og í fyrri árásum.
Trump varar við því að þeir verði látnir gjalda þess dýru verði og sendiherra Bandaríkjanna í öryggisráði SÞ, Nikki Haley, hefur sagt að þrátt fyrir að ekki hafi náðst samkomulag innan ráðsins þá muni Bandaríkin ekki láta það stöðva sig.
„Rússar hafa sett trúverðugleika ráðsins í ruslflokk,“ segir hún og bætir við að það skipti engu um hvað séu greidd atkvæði varðandi Sýrlandi í öryggisráðinu, Rússar beiti neitunarvaldinu í hvert skipti.
Evrópska flugumferðarstjórnin Eurocontrol varaði í gærkvöldi farþegaflugvélar við því að hugsanlega verði gerðar eldflaugaárásir á Sýrland á næstu þremur sólarhringum.