Frans páfi játaði í gær að hafa gert alvarleg mistök í kynferðisbrotamáli í Chile. Í bréfi sem hann ritaði til 32 biskupa þar í landi segir páfi að hann ætli að fá til Rómar þar sem rætt verði um rannsókn á því hvort Juan Barros biskup hafi hylmt yfir presti sem var barnaníðingur.
Frans páfi segir í bréfinu að hann hafi gert alvarleg mistök og skynjað stöðuna rangt ekki síst vegna þess að hann hafi ekki fengið réttar og sannar upplýsingar um málið. Málið snýst um prestinn Fernando Karadima sem er sakaður að hafa níðst kynferðislega á börnum á níunda og tíunda áratug síðustu aldar.
Páfi lýsir skömm sinni og sársauka vegna kvala fórnarlambanna og biður þau um að koma á sinn fund. Barros var skipaður biskup í Osorno í Chile þrátt fyrir að hafa verið sakaður um að hafa hylmt yfir og jafnvel orðið vitni að níðingsverkum Karadima.