Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, segir að sönnunargögn liggi fyrir sem sýni að efnavopnum hafi verið beitt í Sýrlandi og að sýrlensk yfirvöld, undir stjórn Bashar al-Assad, hafi beitt þeim. Þetta kom fram í viðtali við Macron í franska sjónvarpinu í morgun. Hann segir að brugðist verði við þessu og það verði gert á þann hátt sem talið sé áhrifaríkast.
Á sama tíma hefur forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, dregið úr hótunum sínum um eldflaugaárás og er mun loðnari í svörum í dag en í gær. Hann segir að annaðhvort verði árásin gerð fljótlega eða bara alls ekki fljótlega.
„Ég sagði aldrei hvenær árásin á Sýrland yrði gerð. Það gæti verið fljótlega eða alls ekki fljótlega.
Never said when an attack on Syria would take place. Could be very soon or not so soon at all! In any event, the United States, under my Administration, has done a great job of ridding the region of ISIS. Where is our “Thank you America?”
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) April 12, 2018
Undir hans stjórn hafi Bandaríkin unnið frábært starf við að hreinsa svæðið af liðsmönnum Ríkis íslams. „Hvar er þakklætið?“ spyr forsetinn á Twitter í morgun.
Einn af yfirmönnum uppreisnarhópsins Jaish al-Islam, sem áður fór með stjórn í Douma, segir að ekki hafi annað verið hægt en að yfirgefa bæinn eftir efnavopnaárásina. Árásin hafi verið ástæðan fyrir því að uppreisnarmennirnir ákváðu að hopa en í morgun blakti sýrlenski fáninn við hún í bænum.