Þingmaður sakaður um nauðgun

AFP

Háttsettur indverskur þingmaður er til rannsóknar hjá lögreglunni grunaður um að hafa ásamt bræðrum sínum nauðgað sextán ára gamalli stúlku.

Kuldeep Singh Sengar er þingmaður í flokki forsætisráðherra, Narendra Modi, og er valdamikill innan flokksins. Þykir þetta enn eitt dæmið um misskiptinguna í Indlandi og þess hvað yfirstéttin kemst upp með á kostnað þeirra sem lægra eru settir í indversku samfélagi.

Stúlkunni var nauðgað í Unnao-héraði í Uttar Pradesh-ríki þar sem Sengar er þingmaður fyrir þjóðernisflokk hindúa, Bharatiya Janata (BJP). Glæpurinn var framinn í júní í fyrra en málið komst í kastljós fjölmiðla í síðustu viku eftir að faðir fórnarlambsins lést í haldi lögreglu af völdum áverka sem lögreglumenn veittu honum.

Stúlkan reyndi að kveikja í sér fyrir utan heimili ríkisstjórans á sunnudag. Hún segir að lögreglan hafi pyntað föður hennar en hann hafi verið handtekinn fyrir að reyna að reka mál hennar.

Sengar segist saklaus og verið sé að reyna að koma sök á hann. Mannúðarsamtökin Amnesty India hafa gagnrýnt yfirvöld harðlega fyrir að hafa ekki sinnt rannsókn málsins og þörf sé á að það sé rannsakað af heilum hug. Tryggja þurfi fórnarlambinu og fjölskyldu hennar vernd fyrir frekari árásum.

Frétt á vef Amnesty

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert