Getur þýtt stríð

Rússar hafa varað við því að ef Bandaríkin geri loftárás á Sýrland sem svar við meintri efnavopnaárás geti það komið af stað stríði milli ríkjanna tveggja.

„Það er algjört forgangsmál að afstýra stríðshættu,“ segir sendiherra Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum, Vassilí Nebenzia. Hann sakar bandarísk stjórnvöld um að setja alþjóðlegt friðarferli í hættu og að ástandið sé mjög hættulegt.

Vesturveldin eru talin vera undirbúa loftárásir en Rússar, sem eru bandamenn forseta Sýrlands, eru afar mótfallnir slíkum aðgerðum. „Við getum ekki útilokað alla möguleika, því miður,“ sagði Nebenzia við fréttamenn eftir lokaðan fund hjá öryggisráðinu í New York í gærkvöldi. Hann segir að mikil hætta sé á stigmögnun í Sýrlandi en rússneski herinn er þar fyrir.

Háttsettir herforingjar í rússneska hernum hafa varað við því að bandarískar flaugar verði skotnar niður ef rússneskir hermenn eru í hættu.

Nebenzia hefur óskað eftir sérstökum fundi í öryggisráðinu í dag þar sem ræða á um mögulega hernaðaríhlutun vesturveldanna. Samkvæmt upplýsingum frá bandaríska forsetaembættinu er áfram unnið að því að safna saman leynilegum upplýsingum og ræða við bandamenn um frekari viðbrögð.

Sérfræðingar  alþjóðlegu efna­vopna­stofn­un­ar­inn­ar OPCW (Org­an­isati­on for the Prohi­biti­on of Chemical Wea­pons) eru á leið til Sýrlands og munu hefja rannsókn á hvort efnavopnum hafi verið beitt í Douma um helgina.

Aðgerðarsinnar, björgunarfólk og læknar segja að tugir hafi látist í efnavopnaárás á bæinn á laugardag. Forseti Sýrlands, Bashar al-Assad, og ríkisstjórn hans, neita allri aðild að ár´sinni og segja fréttir af árás tilbúning. En Violations Documentation Center (VDC), sem heldur skrá yfir öll möguleg brot á alþjóðalögum í Sýrlandi segja að lík hafi fundist sem báru öll merki þess að hafa orðið fyrir eiturefnaárás. Bandarískir embættismenn hafa einnig sagt að sýni úr fórnarlömbum sanni að bæði klór- og taugagasi hafi verið beitt. Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, tekur í sama streng og segist hafa sannanir fyrir því að svo sé. 

BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert