Stjórnvöld í Sýrlandi fordæma loftárás vesturveldanna, sem gerð var á borgina Homs og nokkra staði í nágrenni Damaskus höfuðborgar Sýrlands í nótt. „Þessi grimmilega og villimannslega árásárgirni mun ekki bera neinn árangur,“ segir í yfirlýsingu sýrlenska utanríkisráðuneytisins sem send var út í morgun.
„Sýrlenska lýðveldið fordæmir á harðasta hátt grimmilega árás Bandaríkjamanna, Breta og Frakka gegn Sýrlandi, hún er gróft brot á alþjóðalögum,“ segir í yfirlýsingunni.
Í frétt AFP-fréttaveitunnar er haft eftir fréttaritara veitunnar um að nokkrir samfelldir sprengihvellir hafi heyrst um klukkan fjögur í nótt að staðartíma, sem er um kl. eitt eftir miðnætti að íslenskum tíma. Sýrlenska ríkisfréttastofa SANA greindi frá árásunum og sagði að þær væru „dæmdar til að mistakast“.
Flugskeytum var skotið úr herskipum og sprengjum varpað úr herþotum.
Donald J. Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði í ávarpi sínu í nótt eftir að árásirnar voru gerðar, að þær væru svar við efnavopnaárás sem gerð var í Douma í Ghouta-héraði nýverið. Henni var beint gegn almennum borgurum Sýrlands. Sýrlensk stjórnvöld hafa staðfastlega neitað að bera ábyrgð á efnavopnaárásinni. Þá hafa stjórnvöld í Rússlandi varað vesturveldi við hernaðaraðgerðum í Sýrlandi og sagt slíkt geta leitt til enn stærri átaka.
Í Damaskus var skotið á rannsóknarstofu, sem talin er vera notuð til framleiðslu efnavopna. Einnig var skotið á efnavopnabúr skammt frá borginni Homs.
Áætlað hafði verið að rannsókn OPWC, sem eru Samtök gegn efnavopnum, á efnavopnaárásinni hæfist í Douma í dag. Í yfirlýsingu sýrlenska utanríkisráðuneytisins segir að árásirnar í nótt setji strik í reikninginn við rannsóknina. „Tímasetning árásanna er á sama tíma og búist er við fulltrúum OPWC til Sýrlands. Árásirnar munu hindra rannsóknina og koma í veg fyrir að rétt niðurstaða fáist,“ segir í yfirlýsingunni.
Þar segir enn fremur að vesturveldin hafi varpað um 110 flugskeytum í árásinni í nótt, en loftvarnir Sýrlands hafi grandað flestum þeirra. Þrír óbreyttir borgarar særðust í Homs, en engar fréttir hafa borist af fjölda særðra eða fallinna í Damaskus.