Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna felldi nú síðdegis ályktunartillögu Rússa um að ráðið fordæmdi flugskeytaárásirnar, sem gerðar voru á efnaverksmiðjur og rannsóknarstofur í Sýrlandi í morgun.
Þrjár þjóðir greiddu tillögu Rússa atkvæði, Rússar, Kínverjar og Bólivíumenn. Átta þjóðir, Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Svíar, Hollendingar, Pólverjar, Kúveitar og Fílabeinsstrendingar greiddu atkvæði gegn tillögunni en fjórar þjóðir sátu hjá, Perú, Kasakstan, Eþíópía og Miðbaugs-Gínea.
Bandarískur embættismaður sagði í dag, að þarlendir sérfræðingar telji, að taugaeitrið sarín hafi verið notað auk klórefna í eiturefnaárásinni á Douma í Sýrlandi fyrr í vikunni. Flugskeytaárásin í morgun voru viðbrögð við efnavopnaárásinni.