Allt er á suðupunkti á Indlandi vegna hópnauðgunar og morðs á átta ára gamalli stúlku. Ekkert ósvipað því sem var eftir að ungri konu var nauðgað af hópi karla í Delí árið 2012 en unga konan lést af völdum áverka sem hrottarnir veittu henni.
Átta eru í haldi vegna glæpsins en nú hefur lögreglan handtekið þingmann úr flokki forsætisráðherra sem grunaður er um að hafa nauðgað 17 ára gamalli stúlku. Almenningi er nóg boðið vegna dugleysis yfirvalda þegar kemur að kynbundnu ofbeldi og hefur verið boðað til mótmæla um allt land í dag.
Mjög er þrýst á Narendra Modi forsætisráðherra en flokkur hans, Bharatiya Janata, er sakaður um að hafa reynt að halda hlífðarskildi yfir Kuldeep Singh Sengar þingmanni flokksins frá Uttar Pradesh og að halda uppi vörnum fyrir meinta gerendur í máli átta ára gömlu stúlkunnar.
Miðlæg rannsóknardeild ríkislögreglustjóra á Indlandi (CBI) handtók þingmanninn í gær og eins var kona að nafni Shashi Singh handtekin að sögn talsmanns CBI, R.K Gaur, í morgun.
Lögregla hóf fyrst rannsókn á málinu gegn þingmanninum í síðustu viku, þrátt fyrir að tæpt ár sé liðið frá því stúlkunni var nauðgað. Stúlkan reyndi að kveikja í sér fyrir utan heimili ríkisstjórans fyrir viku síðan og í kjölfarið var CBI sett í að rannsaka málið. Sengar hefur verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald.
Fjölskylda stúlkunnar, sem hefur hefur án árangurs barist fyrir réttlætinu í tæpt ár segir að Singh hafi tælt stúlkuna undir því yfirskyni að koma í atvinnuviðtal. Síðan stóð Singh vörð við dyrnar á meðan Sengar nauðgaði stúlkunni.
Líkt og fjallað var um á mbl.is fyrir helgi var litlu stúlkunni, sem tilheyrir hópi hirðingja sem eru múslímar, rænt, henni byrluð ólyfjan og ítrekað nauðgað í fimm daga. Þar á meðal í hindúamusteri. Síðan var hún kyrkt og barin með grjóti en kyrkingin leiddi til dauða hennar.