Systkini sem lifðu af skotárás í menntaskóla í Flórída í febrúar eru að skrifa bók um baráttuna fyrir hertri byssulöggjöf í Bandaríkjunum.
Bókaforlagið Penguin Random House greindi frá þessu.
Baráttan fyrir hertri byssulöggjöf hlaut byr undir báða vængi eftir fjöldamorðið.
David og Lauren Hogg hafa tjáð sig einna mest opinberlega af þeim sem lifðu árásina af á Valentínusardag þegar 14 nemendur fórust og þrír starfsmenn skólans Marjory Stoneman Douglas í borginni Parkland.
Bókin, sem kemur út 5. júní, kallast #NeverAgain og er þar vísað í hreyfingu þeirra gegn byssulöggjöfinni.
„Ég og Lauren ætlum að nota peninginn sem við fáum vegna bókarinnar til að hjálpa til við að græða sár samfélagsins,“ sagði David á Twitter.
Hann faldi sig í skáp meðan á skotárásinni stóð. Hann tók upp viðtöl við samnemendur sína á meðan hann var í felum og fóru þau víða í netheimum.
David hefur orðið fyrir aðkasti á netinu og hefur meðal annars verið sakaður um að hafa notfært sér skotárásina og fengið borgað fyrir að tala fyrir frjálslyndum viðhorfum.
Fréttakonan Laura Ingraham hjá Fox News varð nýlega að biðja hann afsökunar eftir að gagnrýni hennar í hans garð leiddi til þess að fyrirtæki hættu að auglýsa í þætti hennar.