Bandarísk yfirvöld hafa boðið eina milljón dollara hverjum þeim sem getur veitt þeim upplýsingar um Austin Tice, bandarískan blaðamann sem hvarf í Sýrlandi árið 2012.
Bandaríska alríkislögreglan FBI tilkynnti um verðlaunin nú í vikunni, án frekari útskýringa á því hvers vegna þau væru boðin nú.
Talið er að Tice sé eini bandaríski blaðamaðurinn sem enn er í haldi í Sýrlandi. Tice starfaði sem lausapenni fyrir McClatchy News, Washington Post, CBS, AFP og aðrar fréttaveitur þegar hann var handtekinn í nágrenni Damaskus í ágúst 2012.
Fjölskylda hans hefur ítrekað óskað eftir upplýsingum um það hvar Tice sé niðurkominn og segjast þau fullviss um að hann sé enn á lífi.
NEW: FBI offering reward up to $1,000,000 for info leading to American journalist Austin Tice, who has been missing in Syria for more than 5 years. https://t.co/0LHMVLOf5W
— NBC News (@NBCNews) April 20, 2018
Í yfirlýsingu á vef FBI segir að aðeins verði greitt fyrir „upplýsingar sem leiði til þess að það takist að finna Tice, bjarga honum og koma heim“.
Hefur verið sett upp sérstakt netfang findaustintice@fbi.gov fyrir þá sem kunna að hafa upplýsingar um Tice.