Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, hefur fyrirskipað að öllum kjarnorkurtilraunum verði hætt. Tilgangi tilraunanna, að tryggja öryggi og stöðugleika ríkisins, hafi verið náð og því sé ekki þörf á frekari tilraunum.
Yonhap fréttastofan í Suður-Kóreu hefur eftir yfirvöldum í Norður-Kóreu að öllum eldflauga- og kjarnorkuvopnatilraunum verði hætt og að tilraunasetrum í norðurhluta landsins verði lokað.
Ákvörðunin verður að teljast tímamótaskref í milliríkjasamskiptum Norður- og Suður-Kóreu. Kim Jong Un mun koma til fundar við Moon Jae-in, leiðtoga Suður-Kóreu, í næstu viku á hlutlausa svæðinu sem aðskilur Norður- og Suður-Kóreu.
Búist er við að kjarnorkuvopn og notkun þeirra verði aðalumræðuefni tilvonandi leiðtogafundar Kim Jong Un og Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa átt í milliliðalausum viðræðum við stjórnvöld í Norður-Kóreu um fund ríkjanna. Trump sagði í vikunni að fundurinn muni líklega eiga sér stað í júní og ef til vill fyrr.
Frétt mbl.is: Leiðtogafundur Trumps og Jong-un nálgast
Aukin harka færðist í kjarnorkuvopnatilraunir Norður-Kóreu í fyrra þegar stjórnvöld gerðu sex prófanir á langdrægum eldflaugum sem sköpuðu mikla spennu milli stjórnvalda í Norður-Kóreu og Bandaríkjunum.