Dæmdur í 20 ára fangelsi

Hryðjuverkamaðurinn Salah Abdeslam var fundinn sekur um morðtilraun fyrir dómi í Brussel í morgun. Hann var dæmdur í 20 ára fangelsi líkt og saksóknarar höfðu farið fram á.

Abdeslam, sem er Belgi fædd­ur í Frakklandi, var ákærður fyr­ir að hafa reynt að drepa nokkra lög­reglu­menn sem tóku þátt í aðgerðum þegar hann var hand­tek­inn í Brus­sel 15. mars 2016. Hann er jafn­framt ákærður fyr­ir ólög­leg­an vopna­b­urð. Fjórir lög­reglu­menn særðust í skot­b­ar­dag­an­um og fé­lagi Abdeslam var skot­inn til bana. Alls var 34 skotum skotið í umsátrinu.

Abdeslam var hand­tek­inn ásamt Tún­is­búa, Sofia­ne Ay­ari, 24 ára, sem einnig var fundinn sekur án nokkurs vafa að sögn dómarans í morgun. Ayari fékk einnig 20 ára fangelsisdóm. Hvorugur þeirra var viðstaddur dómsuppkvaðninguna í Brussel í morgun en mikill viðbúnaður var í réttarsalnum og fyrir utan hann af hálfu lögreglu.

Salah Abdeslam er sá eini af hópnum sem gerði hryðjuverkaárás í París í nóvember 2015. Alls létust 130 í árásunum og 368 særðust.

22. mars 2016 gerðu félagar í hryðjuverkahópi sem tengdist árásinni í París sjálfsvígsárásir á flugvellinum í Brussel og í neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar. Alls létust 32 og hundruð særðust. 

Fyrir dómi kom fram að Abdeslam hafði skrifað móður sinni bréf þar sem hann segir að guð (Allah) hafi leiðbeint honum og valið hann til þess að vera einn af þjónum hans. Vegna þeirrar ástæðu hafi hann orðið að berjast við óvini guðs. Hann skrifar einnig að bróðir hans, Brahim, sem sprengdi sig upp í árásunum í París, hafi ekki framið sjálfsvíg heldur sé hann hetja íslam. 

Dómshúsið í Brussel í morgun.
Dómshúsið í Brussel í morgun. AFP
AFP
Salah Abdeslam.
Salah Abdeslam. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert