Glæpamenn fjárfestu í gegnum aflandsfélög

Úkraínskt glæpagengi fjárfesti milljónum sterlingspunda í dýrar íbúðir í London.
Úkraínskt glæpagengi fjárfesti milljónum sterlingspunda í dýrar íbúðir í London. mbl.is/Atli Steinn

Úkraínskur glæpahópur notaði aflandsfélög í breskum skattaskjólum til þess að fjárfesta, með leynilegum hætti, milljónir sterlingspunda á fasteignamarkaði í London í Bretlandi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í umfjöllun BBC um málið.

Glæpamennirnir keyptu fjölda lúxus-íbúða á eftirsóttum stöðum í London, meðal annars eina slíka á 12,5 milljónir sterlingspunda eða tæplega 1,8 milljarða íslenskra króna.

Dóttir manns sem nefndur er „Guðfaðir Odessa,“ er skráð eigandi þriggja íbúða í einni blokk. Glæpagengið er frá borginni Odessu í Úkraínu og öðlaðist meðal annars fé í gegnum olíuviðskipti.

Upplýsingarnar um fjárfestingar gengisins var meðal annars að finna í Paradísarskjölunum.

Miklar eignir

Glæpagengið vakti athygli lögreglu fyrst undir lok tíunda áratug síðustu aldar, þegar hópurinn var grunaður um að smygla eiturlyfjum og vopnum. Í óreiðunni sem skapaðist vegna falls Sovétríkjanna tókst hópnum að sækja til Evrópu og notaði Ítalíu sem bækistöð.

Lögregluyfirvöld fylgdust með hópnum víða um Evrópu og voru meðal annars símar þeirra hleraðir. „Þeir lýstu einstaklega óhugnanlegum morðum,“ er haft eftir Nunzia Savino, aðstoðarlögreglustjóra Ítalíu.

Glæpamennirnir vildu ávaxta fé sitt með fjárfestingum á fasteignamarkaðinum í London og gegnum aflandsfélög á Bresku-Jómfrúareyjum gátu þeir tryggt nafnleynd.

Meðal félaganna sem er til umræðu er East Corner Properties, sem meðal annars keypti íbúð í eftirsóknaverðri byggingu í Kensington. Annað félag, Matelot Real Estate Incorporated, keypti 2001 íbúð í nýrri byggingu við Temsá beint á móti Chelsea-höfn fyrir um það bil eina milljón sterlingspunda, sem samsvarar um 145 milljónum íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert