Dómstóll í Bretlandi hefur úrskurðað að foreldrar Alfie Evans, tæplega tveggja ára gamals drengs sem er með banvænan sjúkdóm, megi ekki fljúga með son sinn til Vatíkansins til að leita læknismeðferðar.
Þetta er fimmta dómsmálið sem foreldrarnir, Tom Evans og Kate James, tapa á stuttum tíma, en í gær hafnaði Hæstiréttur Bretlands áfrýjun foreldranna um að því yrði frestað að slökkva á öndunarvél drengsins á meðan leitað yrði nýrra leiða til þess að bjarga lífi hans.
Alfie er 23 mánaða gamall og þjáist af afar sjaldgæfum taugahrörnunarsjúkdómi sem veldur því að hann fær ítrekaða krampa. Alfie hefur verið í dái í eitt ár og hefur verið haldið á lífi með aðstoð öndunarvélar.
Slökkt var á öndunarvélinni í gærkvöldi. Faðir hans greindi frá því í dag að læknarnir hafa verið „furðu lostna“ þegar sonur hans hóf að anda af sjálfsdáðum er slökkt hafði verið á öndunarvélinni.
Frétt mbl.is: Andar enn án öndunarvélar
Í umfjöllun The Guardian segir að í dómsúrskurðinum sem var kveðinn upp síðdegis er vísað í orð lækna Evans sem segja að ekki sé hægt að veita honum frekari meðferð, en drengurinn hefur verið í dái í eitt ár.
Foreldrar hans vilja fara með hann á Bambino Gesu-sjúkrahúsið í Róm en sjúkrahúsið er rekið af Páfagarði. Evans átti fund með Frans páfa á miðvikudaginn þar sem hann bað páfa um að bjarga lífi drengsins. Síðar sama dag talaði páfi um að Guð væri sá eini sem réði för þegar kæmi að lífi. Ítölsk stjórnvöld voru reiðubúin að veita Alfie ítalskan ríkisborgararétt svo að hann gæti hafið meðferð í Róm .
Dómarinn lagði til að Alfie verði fluttur af Alder Hey-barnasjúkrahúsinu í Liverpool þar sem hann hefur dvalið síðast árið og á friðsælli stað, hvort sem það væri á heimili foreldranna eða annars staðar, þar sem hann gæti eytt síðustu dögum sínum.