Kanadamaðurinn Alek Minassian, sem ók á vegfarendur í miðborg Toronto í gær, hefur verið ákærður fyrir morð.
Minassian kom fyrir dóm í dag þar sem gefin var út ákæra á hendur honum fyrir manndráp af fyrstu gráðu. Hann er einnig ákærður fyrir margar tilraunir til manndráps. 10 létust og 15 slösuðust í árásinni í gær.
Minassian er í haldi lögreglu og var yfirheyrður fyrr í dag. Hann hefur ekki komið við sögu lögreglu og er ekki að finna í gagnasöfnum hennar. Ekki er vitað til að hann tengist hryðjuverka- eða öfgasamtökum af nokkru tagi.
Öryggismálaráðherra Kandada, Ralph Goodale, segir að þjóðaröryggi sé ekki ógnað en að ljóst sé að verknaðurinn var framinn af yfirlögðu ráði.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada segir árásina vera „glórulausa“ en að íbúar landsins megi ekki lifa í ótta og óvissu hvern einasta dag.
Frétt mbl.is: Trudeau: Óttinn má ekki sigra
Minassian býr ásamt föður sínum í úthverfi í Richmond Hill í Toronto og stundaði nám við Seneca háskólann. Samnemendur hans lýsa honum hlédrægum og ögn vandræðalegum í samskiptum.
Hann hélt sig yfirleitt til hlés í skólanum. Einn samnemandi hans segir í samtali við fréttamann CBS sjónvarpsstöðina að hegðun hans væri oftast „frekar furðuleg“ en að hann hafi aldrei talið að hann væri ofbeldishneigður.