Áfrýjunardómstóll í Bretlandi hafnaði í dag kröfu foreldra Alfie Evans, tæplega tveggja ára gamals drengs sem er með banvænan sjúkdóm, um að fara með hann til Ítalíu til læknismeðferðar.
Dómstóll í Bretlandi hafnaði kröfu foreldranna í gær, en þau vilja fara með hann á Bambino Gesu-sjúkrahúsið í Róm sem er rekið af Páfagarði. Tom Evans, faðir drengsins, átti fund með Frans páfa í síðustu viku þar sem hann bað páfa um að bjarga lífi drengsins.
Alfie er 23 mánaða gamall og þjáist af afar sjaldgæfum taugahrörnunarsjúkdómi sem veldur því að hann fær ítrekaða krampa. Alfie hefur verið í dái í eitt ár og hefur verið haldið á lífi með aðstoð öndunarvélar.
Slökkt var á öndunarvélinni í fyrrakvöld samkvæmt dómsúrskurði en Alfie andar enn af sjálfsdáðum. Foreldrar hans hafa því ekki gefið upp alla von en dómstólar hafa staðfest vilja læknanna og í úrskurðinum sem kveðinn var upp síðdegis segir að Alfie litli sé of veikburða til að ferðast til Ítalíu.
Paul Diamond, lögfræðingur foreldranna, segir að þau séu ekki að leitast eftir töfralausn á Ítalíu. „Þau eru einfaldlega að leitast eftir þeirri meðferð sem mest þörf er á,“ sagði Diamond í réttarsal í dag.
„Við gefumst ekki upp þar sem Alfie andar, hann þjáist ekki,“ sagði faðir Alfies eftir að áfrýjunardómstóllinn hafði hafnað kröfu þeirra um að ferðast með Alfie til Ítalíu.