Bandaríski leikarinn Bill Cosby var í dag sakfelldur í þemur ákæruliðum, fyrir kynferðisofbeldi, fyrir dómstóli í Bandaríkjunum. Var hann sakfelldur fyrir að hafa byrlað Andreu Constand lyf fyrir 14 árum og brotið kynferðislega gegn henni.
Fram kemur í fréttinni að Cosby, sem er áttræður að aldri, gæti staðið frammi fyrir því að verja því sem eftir er af ævi sinni á bak við lás og slá. Ofbeldið gegn Constand átti sér stað á setri Cosbys í Fíladelfíu í janúar árið 2004.
Constand var í dómsalnum í Norristown, skammt utan við Fíladelfíu-borg. Kviðdómurinn hafði fundað um málið í samanlagt 14 klukkustundir á undanförnum tveimur dögum áður en hann komst að niðurstöðu.
Cosby vísaði því á bug að hann væri sekur um að hafa brotið gegn Constand og sagði hana sérfræðing í blekkingum samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Þetta er fyrsti dómurinn í réttarhöldum yfir Cosby vegna ásakana um kynferðisbrot, en fjöldi kvenna hefur sakað hann um slík brot og ná ásakanirnar yfir langt tímabil.