Þúsundir hafa tekið þátt í mótmælum víðsvegar á Spáni eftir að fimm menn sem ákærðir voru fyrir nauðgun voru sýknaðir af þeirri ákæru. Mennirnir voru aftur á móti dæmdir sekir um kynferðisbrot.
Fimmmenningarnir voru allir dæmdir í níu ára fangelsi og til að greiða fórnarlambinu skaðabætur. Árásin átti sér stað á San Fermin hátíðinni í Pamplona í júlí 2016. Mennirnir, sem tilheyra hópi á WhatsApp sem nefndist La manada (hópurinn), tóku árásina upp á myndband en nokkur myndskeið þeirra voru meðal gagna í málinu. Á vef BBC kemur fram að á þeim sjáist þeir ráfandi um götur borgarinnar að næturlagi áður en tveir þeirra fara með ungu konuna, sem var 18 ára gömul, niður í kjallara. Þar króuðu þeir hana af, afklæddu og höfðu við hana óvarin mök sem dómararnir túllka sem kynferðislegt misnotkun en ekki nauðgun.
Einhverjir þeirra tóku kynmökin upp á myndskeið á símum sínum. Alls eru myndskeiðin sjö talsins og eru samanlagt 96 sekúndur á lengd. Einn þeirra sendi skilaboð á WhatsApp hópinn þar sem hann hreykir sér af því hvað þeir hafi gert og heitir því að deila upptökunni með hópnum.
Samkvæmt skýrslu lögreglu var konan algjörlega líflaus á meðan þessu stóð og með augun lokuð allan tímann. Síma hennar var síðan stolið af mönnunum og er það eina afbrotið sem mennirnir játuðu við réttarhöldin.
Stúlkan fannst viti sínu fjær úti á götu skammt frá staðnum þar sem atvikið átti sér stað nokkru síðar. Hún sagði við réttarhöldin að hún væri enn í meðferð hjá sálfræðingi vegna áfallsins. Samkvæmt BBC sést hluti karlanna á myndskeiði þar sem þeir svívirða aðra konu sem virðist vera meðvitundarlaus.
Gríðarleg reiði braust út þegar niðurstaða dómsins lá fyrir í gær. Mótmælt var í miðborg Madrídar og fleiri borgum, Barcelona, Valencia og Pamplona, og hrópaði fólk slagorð eins og skömm, skömm. Nei þýðir nei.
Bæði konan og mennirnir ætla að áfrýja niðurstöðunni en samkvæmt spænskum lögum er munurinn á milli kynferðislegrar misnotkunar og nauðgunar sú að fyrrnefnda felur ekki í sér ofbeldi né ógnanir. Saksóknari hafði farið fram á að þeir yrðu dæmdir í 20 ára fangelsi. Mennirnir hafa allir setið í varðhaldi frá árinu 2016 en þeim er gert að greiða konunni 50 þúsund evrur í miskabætur.
Leiðtogi sósíalista, Pedro Sanchez, skrifaði á Twitter í gær að ef þetta sem „hópurinn“ gerði er ekki ofbeldi hóps gagnvart varnarlausri konu þá sé þetta orðið spurning um skilning okkar á hugtakinu nauðgun.
Fimmmenningarnir, sem allir eru á þrítugsaldri, eru frá Seville. Hvorki þeir né fórnarlambið, sem er frá Madrid, voru viðstaddir dómsuppkvaðninguna í Pamploma í gær.
Aðstoðarforsætisráðherra Spánar, Soraya Saenz de Santamaria, segir að á sama tíma og virða þurfi niðurstöðu dómara þá þurfi yfirvöld að rannsaka hvað hafi gerst til þess að koma í veg fyrir að svona gerist aftur á Spáni.
Í Barcelona tóku þúsundir þátt í mótmælum á Sant Jaume torgi fyrir framan ráðhús borgarinnar. Á borðum mátti lesa: „Ef þú berst á móti þá drepa þeir þig. Ef þú berst ekki á móti þá veitir þú samþykki. Hvað áttu að gera?