Átta konur eru á meðal þeirra tíu sem létust þegar Alek Minassian ók á gangandi vegfarendur í Toronto á mánudagskvöldið. Hinir látnu voru á aldrinum 22-94 ára, þar á meðal nemi frá Suður-Kóreu og jórdanskur maður sem var að heimsækja son sinn sem býr í borginni.
Fjöldi særðra hefur hækkað og munu tvær ákærur um manndrápstilraun bætast ofan á 10 morðákærur og 14 ákærur fyrir tilraun til manndráps sem þegar hafa verið gefnar út á hendur Minassian. Hin særðu sem hafa bæst í hópinn eru 21 árs gamall karlmaður og 67 ára gömul kona. Þau fóru af vettvangi áður en bráðaliðar mættu á svæðið en höfðu samband við lögreglu nokkru seinna.
Minassian lofaði morðingjann Elliot Rodger á Facebook nokkrum mínútum áður en hann lét til skara skríða. Rodger myrti sex manns og særði fjórtán í skotárás á háskóla í Santa Barbara í Kaliforníu 2014 og tók að því loknu eigið líf.
Sagði Minassian í Facebook-færslu sinni að uppreisn þeirra sem ekki væru skírlífir að eigin ósk væri loksins hafin og að öllu myndarlega fólkinu yrði steypt af stóli. „Allir fagni hinum ofurmannlega herramanni Elliot Rodger!“
Minassian er þá sagður hafa eytt löngum stundum á svonefndri Incel-spjallsíðu á Reddit. Incel stendur fyrir involuntary celibate, eða einhver sem er tilneyddur í skírlífi. Á síðunni kvörtuðu karlar yfir skírlífi sínu og kenna konum um. Síðunni var lokað fyrir nokkru.
Lögreglan í Toronto hefur ekki staðfest að tengsl séu á milli fjölda kvenkyns fórnarlamba Minassian og virkni hans á Incel-spjallsíðunni.