Alfie Evans er látinn. Fréttir af andlátinu hafa þakið forsíður breskra fjölmiðla í dag enda hefur þjóðin staðið á öndinni yfir máli þessa tæplega tveggja ára drengs.
Foreldrar Alfies börðust fyrir því að fá hann fluttan til lækninga á Ítalíu. Áður en hann lést hafði hann verið meðvitundarlaus í ár og læknar töldu hann ekki hafa heilsu til að ferðast. Hann var með taugahrörnunarsjúkdóm.
Hér að neðan er stutt ævi Alfies rakin í stuttu máli:
9.maí árið 2016 fæddist Alfie í Liverpool. Foreldrar hans eru Tom Evans og Kate James sem þá voru átján og nítján ára gömul.
14. desember þetta sama ár er Alfie lagður inn á Alder Hey-barnaspítalann eftir að hafa fengið flogaköst. Þar dvaldi hann næstu tólf mánuðina.
11. desember árið 2017 kemur fram í fréttum að foreldrum Alfies og læknum sjúkrahússins greini á um framhald meðferðar hans. Foreldrarnir sögðu að stjórn spítalans hefði höfðað mál til að gera réttindi þeirra gagnvart læknismeðferðinni að engu og til að geta slökkt á öndunarvélinni.
19. desember þetta ár er málið tekið fyrir dóm. Yfirstjórn spítalans sagði að áframhaldandi meðferð myndi ekki þjóna hagsmunum Alfies. Foreldrarnir voru því ósammála og vildu fá að flytja hann til Ítalíu til læknismeðferðar.
1. febrúar 2018 segja lögfræðingar sjúkrahússins fyrir dómi að frekari meðferð væri ómannúðleg gagnvart Alfie.
2. febrúar segir einn af læknum Alfies að það væri engin von fyrir litla drenginn. Hann hefði hlotið mikinn heilaskaða.
5. febrúar segir móðir Alfies að hann hafi horft beint í augu sér. Hún biðlar til almennings um hjálp.
20. febrúar kemst dómarinn að þeirri niðurstöðu að frekari meðferð myndi ekki gagnast litla drengnum og tekur þannig undir málstað spítalans.
1. mars er málið tekið fyrir hjá áfrýjunardómstól.
6. mars kemst sá dómstóll að sömu niðurstöðu og sá fyrri.
8. mars biðja foreldrar Alfies um að Hæstiréttur Bretlands fjalli um málið.
20. mars segir Hæstiréttur að foreldarnir fái ekki heimild til slíkrar áfrýjunar.
28. mars hafna dómarar við mannréttindadómstól Evrópu beiðni foreldranna um að taka málið upp.
4. apríl ákveður dómari að heimilt sé að slökkva á öndunarvél Alfies en halda áfram líknandi meðferð.
16. apríl segja foreldrarnir að Alfie sé haldið nauðugum á sjúkrahúsinu. Dómari tekur þann anga málsins fyrir en kemst að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki. Foreldrarnir krefjast þess að fá að taka hann heim. Mannfjöldi safnast saman fyrir utan sjúkrahúsið og stuðningsmenn Alfies, sem þar eru margir, eru sakaðir um áreiti svo lögreglan verður að skerast í leikinn.
17. apríl biðla foreldrarnir enn einu sinni til dómstóla um að taka málið fyrir.
Daginn eftir flýgur faðir Alfies til Rómar á fund Frans páfa. Hann biður páfa um liðsinni.
20. apríl kemst dómstóll að sömu niðurstöðu og fyrr og tekur fyrir frekari áfrýjanir á málinu. Foreldarnir leita aftur til mannréttindadómstólinn og biðja um aðstoð svo þau geti flutt Alfie til Rómar.
23. apríl vísar mannréttindadómstóllinn beiðni foreldranna frá. Þennan sama dag fær Alfie ítalskan ríkisborgararétt. Um kvöldið er slökkt á öndunarvél Alfies. Faðir hans segir að drengurinn hafi komið öllum á óvart með því að anda af sjálfsdáðum.
24. apríl er málið enn einu sinni tekið til æðra dómsstigs og nú vegna flutningsins til Ítalíu en dómarinn hafnar þeirri beiðni.
Daginn eftir er enn einn angi málsins tekinn fyrir hjá dómara og í þetta sinn hvort ekki megi fljúga með Alfie til útlanda fyrst dómari hafi heimilað að hann verði fluttur heim til líkandi meðferðar. Niðurstaðan er á sama veg: Dómari fellst ekki á að flytja megi drenginn til Ítalíu.
26. apríl segir faðir Alfies að foreldrarnir ætli að vera samvinnuþýðir til að tryggja að sonur þeirra fái þá aðstoð sem hann þurfi.
28. apríl: Alfie litli deyr.