Frans páfi segist vera djúpt snortinn yfir fregnunum af andláti Alfie Evans.
Alfie lést aðfaranótt laugardags eftir hetjulega baráttu við taugahrörnunarsjúkdóm sem hann greindist með sjö mánaða gamall. Alfie var tæplega tveggja ára þegar hann lést.
Foreldrar Alfies börðust fyrir því að fá hann fluttan á Bambino Gesu-sjúkrahúsið í Róm en sjúkrahúsið er rekið af Páfagarði.Yfirvöld á Ítalíu veittu Alfie ítalskan ríkisborgararétt til að tryggja að hann myndi hljóta réttindi til að fá læknisþjónustu í landinu. Áður en hann lést hafði hann verið meðvitundarlaus í ár og læknar töldu hann ekki hafa heilsu til að ferðast. Slökkt var á öndunarvél Alfies á mánudaginn fyrir rúmri viku samkvæmt dómsúrskurði.
„Ég bið sérstaklega fyrir foreldrum hans á meðan Guð almáttugur umvefur hann sínum mjúku örmum,“ skrifar páfinn á Twitter-síðu sinni.
Páfinn hafði átt í nánum tengslum við fjölskylduna. Faðir Alfies, Tom Evans, átti fund með Frans páfa 18. apríl þar sem hann bað páfa um að bjarga lífi drengsins. Síðar sama dag talaði páfi um að Guð væri sá eini sem réði för þegar kæmi að lífi. Það væri okkar hlutverk að gera allt sem í okkar valdi stæði til þess að vernda líf.