Áreitti krónprinsessuna

Viktoría krónprinsessa Svía ásamt föður sínum Karli XVI. Gústafi Svíakonungi.
Viktoría krónprinsessa Svía ásamt föður sínum Karli XVI. Gústafi Svíakonungi. AFP

Sara Stridsberg valdi um helgina að yfirgefa Sænsku akademíuna (SA), sem þýðir að alls eru nú átta af 18 stólum auðir, en meðlimir SA eru skipaðir ævilangt af Svíakonungi. Samkvæmt reglum SA þarf 12 atkvæði sitjandi meðlima til að taka allar meiriháttar ákvarðanir, svo sem að kjósa inn nýja meðlimi og velja Nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum, en eins og fram kom í Morgunblaðinu um helgina íhuga menn að fresta verðlaunum ársins 2018 og veita tvenn á næsta ári.

Samtímis afsögn Stridsberg greindi Svenska Dagbladet frá því að Jean-Claude Arnault, sem sakaður hefur verið um kynferðislegt ofbeldi, fjármálaóreiðu og að hafa lekið nöfnum tilvonandi Nóbelsverðlaunahafa sem leitt hefur til afsagnar sex meðlima SA á síðustu fjórum vikum, hafi áreitt Viktoríu krónprinsessu Svía kynferðislega árið 2004 í matarboði á vegum SA.

SvD hefur eftir þremur ónafngreindum heimildarmönnum að Arnault hafi þuklað á afturenda prinsessunnar fyrir framan Horace Engdahl, sem var ritari SA 1999-2009, og sökum þessa hafi Engdahl tryggt að Viktoría þyrfti ekki að vera ein með Arnault í herbergi það sem eftir lifði kvölds. Frá því Dagens Nyheter skrifaði fyrst um ásakanir um kynferðislega áreitni og ofbeldi á hendur Arnault í nóvember hefur Engdahl ítrekað í sænskum fjölmiðlum lýst því yfir að hann hafi enga vitneskju haft um óviðurkvæmilegt framferði Arnault, sem lengi hefur verið náinn vinur Engdahl.

Ebba Witt-Brattström, bókmennaprófessor sem gift var Engdahl í rúm 30 ár, segist í samtali við Expressen hafa orðið vitni að uppákomunni. „Hann [Arnault] strauk á henni [Viktoríu] bakið og niður eftir. Horace Engdahl sá þetta og áttaði sig á því að í þetta skipti hefði hann [Arnault] gengið of langt,“ segir Witt-Brattström og rifjar upp að aðstoðarkona prinsessunnar hafi gripið inn í aðstæðurnar og slitið Arnault frá prinsessunni. Hirðin kýs að tjá sig ekki um málið og Björn Hurtig, lögmaður Arnault, segir ásakanirnar vera ósannar. Á föstudag var hluti af úttekt sem lögfræðistofan Hammarskiöld & Co vann fyrir SA að beiðni Söru Danius, þáverandi ritara SA, um tengsl Arnault við SA gerður opinber í sænskum fjölmiðlum samtímis því sem Jan Tibbling, yfirsaksóknara hjá efnahagsbrotadeild, staðfesti að rannsókn væri hafin á framferði Arnault. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert