„Hvenær ætla að þeir að byrja að berja mig,“ voru fyrstu orðin sem Rakhmat Kilov, sem varð fimm að bana í árás í miðborg Stokkhólms í apríl í fyrra, sagði við lögmann sinn.
Þetta kom fram á síðasta degi réttarhaldanna yfir honum í Svíþjóð í gær en réttarhöldin hafa staðið yfir í tvo mánuði. Dómur fellur í málinu 7. júní.
Rakhmat Akilov, sem er frá Úsbekistan, stal vörubíl og ók niður helstu göngugötu borgarinnar síðdegis á föstudegi. Auk þeirra sem létust særðust á annan tug vegfarenda. Akilov hafði sótt um hæli í Svíþjóð en fékk synjun. Enginn hefur barið Rakhmat Akilov, sagði Johan Eriksson lögmaður hans á lokadegi réttarhaldanna. Heldur hafi hann notið málsmeðferðar sem einkennir sænskt réttarkerfi. Að sögn lögmannsins er það aðdáunarvert. Lögreglan hafi jafnvel lánað honum nokkrar sjónvarpsþáttaraðir til þess að stytta biðina í gæsluvarðhaldinu. Eriksson segir að þetta sé dæmi um hvernig árás Akilov hafi mistekist að hafa áhrif á sænskt réttarkerfi. Jafnvel þrátt fyrir að Akilov telji sjálfur að hann hafi framið hryðjuverk þá segir lögmaðurinn að ekki eigi að líta á árásina sem slíka. Svíþjóð hafi ekki orðið fyrir hryðjuverkaárás.
Saksóknari benti aftur á móti á að með árásinni hafi Akilov lamað athafnalíf í Stokkhólmi í nokkrar klukkustundir.
Akilov hefur játað á sig verknaðinn en biður um að vera ekki framseldur til heimalandsins. Ef það verði gert verði hann pyntaður til dauða á nokkrum mánuðum.