Biður um að vera ekki framseldur

Rakhmat Akilov fyrir rétti í Stokkhólmi. Hann segist hafa viljað …
Rakhmat Akilov fyrir rétti í Stokkhólmi. Hann segist hafa viljað hefna fyrir þátttöku Svía í baráttunni gegn Ríki íslams. AFP

„Hvenær ætla að þeir að byrja að berja mig,“ voru fyrstu orðin sem Rak­hmat Ki­lov, sem varð fimm að bana í árás í miðborg Stokk­hólms í apríl í fyrra, sagði við lög­mann sinn.

Þetta kom fram á síðasta degi rétt­ar­hald­anna yfir hon­um í Svíþjóð í gær en rétt­ar­höld­in hafa staðið yfir í tvo mánuði. Dóm­ur fell­ur í mál­inu 7. júní.

Rak­hmat Aki­lov, sem er frá Úsbekist­an, stal vöru­bíl og ók niður helstu göngu­götu borg­ar­inn­ar síðdeg­is á föstu­degi. Auk þeirra sem lét­ust særðust á ann­an tug veg­far­enda. Aki­lov hafði sótt um hæli í Svíþjóð en fékk synj­un. Eng­inn hef­ur barið Rak­hmat Aki­lov, sagði Joh­an Eriks­son lögmaður hans á loka­degi rétt­ar­hald­anna. Held­ur hafi hann notið málsmeðferðar sem ein­kenn­ir sænskt rétt­ar­kerfi. Að sögn lög­manns­ins er það aðdá­un­ar­vert. Lög­regl­an hafi jafn­vel lánað hon­um nokkr­ar sjón­varpsþátt­araðir til þess að stytta biðina í gæslu­v­arðhald­inu. Eriks­son seg­ir að þetta sé dæmi um hvernig árás Aki­lov hafi mistek­ist að hafa áhrif á sænskt rétt­ar­kerfi. Jafn­vel þrátt fyr­ir að Aki­lov telji sjálf­ur að hann hafi framið hryðju­verk þá seg­ir lögmaður­inn að ekki eigi að líta á árás­ina sem slíka. Svíþjóð hafi ekki orðið fyr­ir hryðju­verka­árás.

Sak­sókn­ari benti aft­ur á móti á að með árás­inni hafi Aki­lov lamað at­hafna­líf í Stokk­hólmi í nokkr­ar klukku­stund­ir.

Aki­lov hef­ur játað á sig verknaðinn en biður um að vera ekki fram­seld­ur til heima­lands­ins. Ef það verði gert verði hann pyntaður til dauða á nokkr­um mánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert