Bókmenntaverðlaun Nóbels verða ekki afhent í ár. Þetta kemur fram í færslu sænsku akademíunnar (SA) í morgun. Þetta er í fyrsta sinn frá því að seinni heimstyrjöldinni lauk að verðlaunin eru ekki afhent.
Bein lýsing af blaðamannafundi á vef sænska ríkissjónvarpsins
Anders Olsson, starfandi ritari SA, greindi frá þessu á fundi með blaðamönnum í morgun. Hann segir að ákvörðunin hafi verið tekin eftir löng og stíf fundarhöld en traust á nefndinni og störfum hennar sé það lítið í dag að ekki hafi verið hægt að bregðast öðruvísi við. Stefnt sé að því að afhenda þau á næsta ári og vonandi verði um tvær verðlaunaafhendingar að ræða þá, segir Olsson.
Bókmenntaverðlaun Nóbels voru fyrst afhent árið 1901 en sjö sinnum hefur ekki verið hægt að veita verðlaunin á tilsettum tíma, en í þau skipti voru þau afhent síðar. Olsson segir ástandið afar sérstak í ár en hluti nefndarmanna hefur sagt af sér vegna ásakana á hendur Jean-Claude Arnault, sem verið hefur mjög áhrifamikill í sænsku bókmenntalífi um árabil, um kynferðislega áreitni.
Allt hófst þetta með #MeToo herferðinni í nóvember en þá birti sænska dagblaðið Dagens Nyheter frásagnir átján kvenna sem sökuðu Arnault um að hafa nauðgað sér, beitt sig kynferðislegu ofbeldi eða áreitt sig kynferðislega. Arnault hefur alla tíð neitað ásökunum.
Arnault er giftur skáldkonunni Katarinu Frostenson (valin inn í akademíuna 1992). Þau hjónin hafa um langt árabil rekið bókmenntaklúbbinn Forum, sem þau eiga, og notið góðs af fjárframlögum frá akademíunni.
Tveimur dögum eftir að lögreglan hóf rannsókn á ásökunum kvennanna í desember sleit Sænska akademían öll tengsl sín við Arnault. Sara Danius (valin 2013), sem fyrst kvenna tók við stöðunni sem ritari Sænsku akademíunnar 2015, fordæmdi háttalag Arnault og ákvað akademían í framhaldinu að ráða lögfræðistofuna Hammarskiöld & Co til að rannsaka tengsl Arnault við alla meðlimi akademíunnar.
Ákvörðun sænsku akademíunnar mun ekki hafa nein áhrif á afhendingu annarra Nóbelsverðlauna í ár, segir stjórnarformaður Nóbelsnefndarinnar, Carl-Henrik Heldin.
Nú liggur fyrir að næsta verk sænsku akademíunnar verður að velja nýja nefndarmenn inn í hana en hún er skipuð af konungi Svía og er um ævilanga ráðningu að ræða.
Frá því í byrjun apríl hafa sex nefndarmenn sagt af sér. Fyrst Klas Östergren, Kjell Espmark og Peter Englund. Síðar fylgdi Katarina Frostensson á eftir og Sara Danius sem var ritari nefndarinnar. Á laugardag sagði Sara Striðsberg sig frá störfum fyrir SA. Áður höfðu þær Kerstin Ekman og Lotta Lotass yfirgefið SA og eru því aðeins 10 nefndarmenn eftir.
Samkvæmt reglum SA þarf 12 atkvæði sitjandi meðlima til að taka allar meiriháttar ákvarðanir, svo sem að kjósa inn nýja meðlimi og velja Nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum.