Mótmæltu sýknu í hópnauðgunarmáli

AFP

Talið er að 50 þúsund manns hafi tekið þátt í mótmælum á götum Madríd í dag, en um var að ræða framhaldsmótmæli vegna sýknudóms í nauðgunarmáli, þar sem fimm karlmenn voru sýknaðir af því að hafa hópnauðgað 18 ára stúlku. AFP-fréttastofan greinir frá.

Mennirnir, sem allir eru á þrítugsaldri, voru sakaðir um að hafa nauðgað stúlkunni í anddyri fjölbýlishúss í Pamplona í júlí árið 2016. Þeir tóku atvikið upp á myndband, deildu því á samskiptaforritinu WhatsApp og stærðu sig af gjörðum sínum.

AFP

Mennirnir voru allir sýknaðir af kynferðislegri árás, sem felur í sér nauðgun, en dæmdir í níu ára fangelsi fyrir kynferðisbrot. Samkvæmt spænskum lögum felur það ekki í sér ofbeldi eða ógnun. Einn af þremur dómurum í málinu vildi sýkna mennina að öllu leyti. Dómurinn féll í Pamplona í síðustu viku.

AFP

Mikil reiði hefur gripið um sig vegna dómsins og streymdi fólk út aftur út á götur í dag til að mótmæla. „Göturnar eru líka okkar á nóttunni,“ stóð á stóru skilti sem mótmælendur báru á milli sín þar sem þeir gengu frá skrifstofu ráðuneytis jafnréttismála að Hæstarétti. „Ég vil komast heim, jafnvel þótt ég sé ein og drukkin,“ var hrópað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert