Hryðjuverkaárásirnar í Frakklandi urðu Donald Trump Bandaríkjaforseta að umtalsefni á ráðstefnu samtaka bandarískra skotvopnaeigenda (NRA) í Dallas í Texas í dag. Sagði hann m.a. að byssur hefðu stöðvað árásirnar á Bataclan-skemmtistaðinn og þjóðarleikvanginn í París í desember 2015, sem kostaði 130 manns lífið.
Trump myndaði byssu með fingrum sér og hrópaði „búmm“ á áhorfendur. „Ef aðeins einn starfsmaður eða gestur hefði verið með byssu [...] ef ein manneskja í þessu herbergi hefði verið með byssu, þá hefðu árásarmennirnir verið stöðvaðir,“ sagði hann. „Hryðjuverkamennirnir hefðu flúið eða verkið skotnir og niðurstaðan hefði orðið allt önnur.“
Forsetinn gerði sér því næst mat úr þeim fjölda sem lést í árásunum. „Enginn er með byssur í París. Enginn og við munum öll þessa 130, auk þess mikla fjölda sem særðist hræðilega illa. Fólkið dó á veitingastöðum og ýmsum öðrum stöðum í návígi. Það var myrt með grimmilegum hætti af hryðjuverkamönnum sem voru með byssur. Þeir tóku sinn tíma og skutu fólkið eitt af öðru.“
Því næst lék Trump að hann væri að stilla upp og skjóta saklaus fórnalömb. Hann sagði; „Búmm, komdu hingað. Búmm komdu hingað. Búmm, komdu hingað. Búmm,“ og bætti við, „ef bara einn einstaklingur í þessu herbergi hefði verið með byssu sem beint var í hina áttina hefðu hryðjuverkamennirnir flúið eða verið skotnir.“ Uppskar forsetinn mikil fagnaðarlæti frá ráðstefnugestum.
„Ef við ætlum að gera byssur brottrækar verðum við líka að gera alla flutningabíla og vörubíla brottræka af því að þeir eru hin nýja mynd dauðans fyrir brjálaða hryðjuverkamenn.“
Ónefnt sjúkrahús í London er þá eins og stríðssvæði „vegna hræðilegra stungusára“ að sögn Trumps. „Ég las nýlega frétt um sjúkrahús í London þar sem byssulöggjöfin er mjög ströng,“ sagði hann. Sjúkrahúsið, „sem var eitt sinn mjög virt, er nú eins og stríðssvæði vegna hræðilegra stungusára. Þeir eru ekki með byssur, en þeir hafa hnífa og þess vegna er blóð um öll spítalagólfin,“ bætti forsetinn við.
„Þeir segja að þetta sé jafnslæmt og á spítölum á stríðssvæðum. Hnífar, hnífar, hnífar,“ sagði forsetinn og lék nú stunguhreyfingu til að leggja áherslu á orð sín. „Lundúnabúar eru ekki vanir þessu, en þeir eru að venjast því. Þetta er ansi hrottalegt,“ bætti hann við en von er á Trump í opinbera heimsókn til Bretlands í júlí.
Sagði forsetinn ráðstefnugestum einnig að „umsátursástand“ ríkti nú um réttindi byssueigenda í Bandaríkjunum.
Þetta er fjórða ráðstefna NRA sem Trump talar á á því tæplega eina og hálfa ári sem hann hefur verið í embætti, en samtökin styrktu forsetaframboð hans um 11 milljónir dollara.
Eftir skotárásina í framhaldsskólanum í Parkland í Flórída sagði Trump að hann tæki slaginn við NRA varðandi hertari byssulöggjöf. Segir BBC forsetann hafa á þeim tímapunkti virst þeirra skoðunar að hækka ætti aldurstakmark fyrir skotvopnakaup og loka glufum í bakgrunnsskoðun á byssueigendum, sem og að gera ætti upptæk skotvopn í eigu andlega veikra einstaklinga.
Síðar sagði hann slíkar hugmyndir ekki njóta mikils pólitísks stuðnings, þess í stað lagði hann til að starfsfólk skóla ætti að fá þjálfun í meðferð skotvopna.