Bandarískur prestur, sem hefur verið í haldi í tyrknesku fangelsi í meira en eitt og hálft ár, ákærður fyrir hryðjuverk, hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi varðhald.
Málflutningur í máli Andrew Brunson heldur áfram 18. júlí. Hann rak kirkju í borginni Izmir í Tyrklandi og var handtekinn í október árið 2016. Verði hann fundinn sekur gæti hann átt fyrir höfði sér allt að 35 ára fangelsisdóm.
Í ákæru kemur fram að Brunson er grunaður um að hafa tekið þátt í aðgerðum hóps undir forystu Fethullah Gulen, eins helsta andstæðing Erdogans forseta. Hópurinn er sakaður um að hafa reynt að steypa Erdogan af stóli sumarið 2016.
Brunson neitar öllum tengslum við hóp Gulens og segist ekki hafa haft nokkra vitneskju um valdaránstilraunina sem var gerð 15. júlí 2016.