Trump ítrekar stuðning sinn við Haspel

Gina Haspel gæti orðið fyrsta konan til að stjórna CIA.
Gina Haspel gæti orðið fyrsta konan til að stjórna CIA. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti yfir stuðningi sínum við Ginu Haspel sem næsta forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, á Twitter.

Umræða var uppi um að Haspel ætlaði að draga tilnefningu sína til baka af ótta við að bandaríska öldungadeildin láti hana hafa það óþvegið vegna tengsla hennar við pyntingar á hryðjuverkamönnum.

BBC greinir frá því að hún hafi boðist til að draga sig í hlé en hafi nú ákveðið að gera það ekki. 

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Haspel, sem starfar sem aðstoðarforstjóri CIA, stjórnaði yfirheyrslum stofnunarinnar sem kölluðust „svarti klefinn“ á Taílandi eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september.

Búist er við því að þingmenn muni sækja hart að henni í yfirheyrslu á miðvikudaginn áður en kosið verður um það hvort hún hljóti embættið.

Talið er að John McCain, öldungadeildarþingmaður repúblikana sem sjálfur var pyntaður sem stríðsfangi í Víetnam, muni sækja hart að henni.

John McCain, þingmaður bandarísku öldungadeildarinnar.
John McCain, þingmaður bandarísku öldungadeildarinnar. AFP

„Hin mikilsvirta Gina Haspel sem ég tilnefndi sem forstjóra CIA, hefur verið gagnrýnd vegna þess að hún var of grimm við hryðjuverkamenn,“ tísti Trump.

„Hugsið ykkur. Á þessum hættulegum tímum höfum við mjög hæfa manneskju, konu sem demókratar vilja losna við vegna þess að hún tekur of hart á hryðjuverkum. Áfram Gina!“

Haspel, sem er 61 árs, er mikilsvirt innan leyniþjónustunnar og þykir öguð og ópólitísk sem hafi tekið að sér erfið verkefni.

Staða forstjóra CIA losnaði eftir að Mike Pompeo tók við embætti utanríkisráðherra í síðasta mánuði.

Haspel verður fyrsta konan til að stjórna CIA ef hún nær kjöri í embættið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert