Hundsuðu símtal deyjandi konu

Yfirfullir spítalar og skortur á starfsfólki - franska heilbrigðiskerfið.
Yfirfullir spítalar og skortur á starfsfólki - franska heilbrigðiskerfið. AFP

Rannsókn er hafin á andláti ungrar konu aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hún hringdi í neyðarlínuna en sá sem svaraði hundsaði beiðni hennar um aðstoð. Almenningur í Frakklandi hefur gagnrýnt viðbrögð neyðarlínunnar harðlega.

Naomi Musenga, sem var 22 ára gömul, hringdi í neyðarnúmerið 29. desember og kvartaði undan hrikalegum verkjum í maga. Á  upptökunni, sem er þrjár mínútur að lengd, má heyra Musenga lýsa verkjunum veikum rómi. „Ég finn til allsstaðar.“ „Ég er að deyja“. Fjölskylda hennar fékk nýverið afrit af upptökunni. Svarið sem unga konan fær er: „Já þú munt örugglega deyja einn daginn líkt og við öll.“ Síðan heyrist manneskjan, sem svarar hjá neyðarlínunni, hæðast að Musenga við starfssystur áður en hún ráðleggur Musenga að hringja í lækni og biðja hann um að koma. 

Fimm klukkutímum síðar hringir Musenga aftur í neyðarlínuna sem loksins sendir sjúkrabíl á vettvang og flytur hana á sjúkrahús í Strassborg. En Musenga lést skömmu eftir komuna þangað úr hjartaáfalli. 

Í frétt Le Monde kemur fram að krufning hafi leitt í ljós margháttaða líffærabilun Musenga. Heilbrigðisráðherra Frakklands, Agnes Buyzn, segir á Twitter að hún sé fokill yfir þessari framkomu og að hún hafi krafist opinberrar rannsóknar á alvarlegum mistökum neyðarlínunnar.

Á sama tíma er mjög rætt um fjársvelti frönsku heilbrigðisþjónustunnar og þörfina fyrir aukið fjármagn í heilbrigðiskerfið.

Árið 1988 komu átta milljónir manna á neyðarmóttökur í Frakklandi á ári. Nú er það 21 milljón heimsóknir á ári, segir formaður samtaka bráðalækna í Frakklandi, Patrick Pelloux, í viðtali við Le Parisien. Á sama tíma hefur símtölum til neyðarlínunnar fjölgað verulega.

Er svo komið að vikum saman hafa ekki verið næg rúm fyrir alla sjúklinga þannig að þeir hafa þurft að sofa á sjúkrabörum á göngum spítalanna. Bæði læknar, hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk sjúkrahúsanna, hafa mótmælt auknu álagi sem fylgi fjölgun sjúklinga og fáliðuðu starfsfólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert