Stöðvaður á flugvellinum og settur í farbann

Fjölmenni stoppaði bíla á flugvellinum í Kuala Lumpur, höfuðborg Malasíu. …
Fjölmenni stoppaði bíla á flugvellinum í Kuala Lumpur, höfuðborg Malasíu. Var komið í veg fyrir að fyrrverandi forsætisráðherra landsins, Najib Razak og Rosmah Mansor eiginkona hans kæmust til Indónesíu. AFP

Fyrrverandi forsætisráðherra Malasíu, Najib Razak, hefur verið úrskurðaður í farbann, en taldar voru líkur á því að hann myndi flýja landið í kjölfar óvænts kosningaósigurs í vikunni. Var Razak flæktur í umfangsmikið spillingamál og var talið að hann myndi reyna að komast úr landi til að komast hjá saksókn.

Fjöldi fólks hafði safnast saman við flugvöllinn í Kuala Lumpur í gær og stöðvuðu umferð þangað til að koma í veg fyrir að Razak færi ásamt eiginkonu sinni úr landi eftir að flugupplýsingar láku á netið sem sýndu að hjónin ætluðu til Indónesíu. Hafði hann sagst ætla að taka stutt frí eftir kosningarnar.

Razak tilkynnti svo í gærkvöldi að hann hefði stigið til hliðar sem leiðtogi BN stjórnmálaflokksins sem hafði verið í stjórn landsins fyrir kosningarnar.

Najib Razak tapaði kosningum í landinu eftir að ásakanir um …
Najib Razak tapaði kosningum í landinu eftir að ásakanir um umfangsmikla spillingu komust í hámæli. AFP

Razak og flokkur hans töpuðu meirihluta til flokks Mohamad Mahathir, en hann er 92 ára gamall og varð elsti þjóðarleiðtogi heims. Mahathir hafði áður verið leiðtogi flokkabandalags sem fór með völd í Malasíu um langt skeið frá sjálfstæði þess árið 1957. Var hann þar af forsætisráðherra í 22 ár. Mah­at­hir lét sjálf­vilj­ug­ur af embætti árið 2003, en gerðist forsætisráðherraefni stjórnarandstöðuflokkanna eftir að Razak flæktist í spillingamálið.

Mahathir hefur greint frá því að hann muni láta rannsaka spillingamálið, en grunur leikur á því að háar fjárhæðir hafi runnið úr ríkissjóðinum 1MDB og verið notaðar til að kaupa allt frá málverkum upp í lúxus fasteignir. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna nemur upphæðin sem um ræðir 4,5 milljörðum dala, eða um 450 milljörðum íslenskra króna. Razak hefur neitað öllum ásökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert