Ivanka mætt til Jerúsalem

Ivanka Trump ásamt staðgengli utanríkisráðherra Ísraels, Tzipi Hotovely, við móttöku …
Ivanka Trump ásamt staðgengli utanríkisráðherra Ísraels, Tzipi Hotovely, við móttöku í dag vegna flutnings sendiráðs Bandaríkjanna til Jerúsalem. AFP

Ivanka Trump, dóttir Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, og eiginmaður hennar, Jared Kushner, komu til Ísraels í dag. Þau fara fyrir sendinefnd Bandaríkjastjórnar sem verður viðstödd þegar sendiráð Bandaríkjanna verður opnað í Jerúsalem á morgun.

Trump viður­kenndi Jerúsalem sem höfuðborg Ísra­els í desember og vakti ákvörðun hans undrun og vanþóknun víða um heim. Um sögu­lega ákvörðun er að ræða en hún fel­ur í sér grund­vall­ar­breyt­ingu á þeirri ut­an­rík­is­stefnu sem Banda­rík­in hafa fylgt und­an­farna ára­tugi allt frá stofn­un Ísra­els­rík­is árið 1948. 

Á meðan for­sæt­is­ráðherra Ísra­els, Benjam­in Net­anya­hu, segir að með því að viður­kenna Jerúsalem sem höfuðborg lands­ins sé mögu­leiki á að friður ná­ist á svæðinu segir Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, að með viðurkenningunni hafi Trump veitt þeim „löðrung aldarinnar“. Palestínustjórn fordæmdi ákvörðun Trumps í desember, en Palestínumenn líta á Jerúsalem sem höfuðborg Palestínu.

Trump ekki viðstaddur flutninginn

Bandaríska sendiráðið verður formlega flutt til Jerúsalem frá Tel Aviv á morgun. Til að byrja með fær sendiráðið bráðabirgðaaðstöðu í húsnæði aðalræðismanns Bandaríkjanna í Jerúsalem. Öll starfsemi sendiráðsins verður flutt síðar.

Trump verður ekki viðstaddur opnunina en mun flytja ávarp með hjálp tækninnar. Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og John Sullivan aðstoðarutanríkisráðherra eru hins vegar hluti af sendinefndinni.

Kushner, sem er náinn ráðgjafi forsetans, mun funda með Netanyahu í dag, þar sem farið verður yfir flutning sendiráðsins.

Frétt BBC

Sendiráð Bandaríkjanna verður formlega flutt frá Tel Aviv til Jerúsalem …
Sendiráð Bandaríkjanna verður formlega flutt frá Tel Aviv til Jerúsalem á morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka