Biður Johnson um hjálp

AFP

Eiginmaður bresk/íranskrar konu sem situr í fangelsi í Íran fyrir njósnir hvetur utanríkisráðherra Bretlands, Boris Johnson, til þess að ræða mál eiginkonu sinnar á fundi sínum með utanríkisráðherra Írans. Ráðherrarnir munu eiga fund saman í Brussel þar sem rætt verður um kjarnorkusamninginn.

Nazanin Zaghari-Ratcliffe, 39 ára, var dæmd í fimm ára fangelsi fyrir njósnir árið 2016 en hún var handtekin á flugvelli þar í landi þar sem hún var á heimleið til Englands ásamt dóttur sinni.

Richard Ratcliffe segir að eiginkona hans sé afar uggandi um sinn hag eftir að hafa frétt af því að hún yrði jafnvel ákærð að nýju.

Zaghari-Ratcliffe er sökuð um að hafa undirbúið samsæri gegn ríkisstjórn Írans. Hún neitar sök og segist hafa komið til landsins til þess að kynna dóttur sína, Gabrielle, fyrir foreldrum sínum sem eru búsett í Íran. Eiginmaður hennar segir í samtali við BBC að mál hennar hafi verið tekið upp að nýju og ákvörðunar sé að vænta innan tíðar. 

Hann segir að þrír breskir ríkisborgarar hafi verið handteknir í Íran í síðasta mánuði og alls séu tæplega 30 Bretar í haldi þar. Flestir þeirra sakaðir um brot á öryggisreglum. Á sunnudag hvatti Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, forseta Írans til þess að beita sér fyrir lausn Bretanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert