Hvetja til óháðrar rannsóknar á Gaza

Bresk stjórnvöld hvöttu í dag til „óháðrar rannsóknar“ á mannfallinu sem varð í mótmælunum á Gaza í gær sem kostuðu 60 manns lífið. Bandaríkin höfðu áður beitt neitunarvaldi sínu gegn tillögu Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um sambærilega rannsókn.

„Bretland styður óháða rannsókn á því hvað gerðist,“ sagði Alistair Burt, sem fer með málefni Miðausturlanda í breska utanríkisráðuneytinu, í þinginu í dag.

Hvatti hann ísraelsk stjórnvöld til að sýna „meiri stillingu“ varðandi notkun skotvopna og sagði rannsóknina m.a. eiga að ná til þess hvers vegna skotvopnum hafi verið beitt í svo miklum mæli.

Engu að síður væri það „hörmulegt en satt að öfgahópar hefðu notað mótmælin“ sagði hann og kvað stjórnvöld „skilja af hverju Ísrael leitist við að verja landamæri sín“.

Meirihluti þeirra Gazabúa sem drepnir voru í gær, féllu fyrir skotum ísraelskra leyniskyttna að því er heilbrigðisráðuneyti Gaza fullyrðir. Ekki hafa jafn marg­ir lát­ist í átök­um Ísra­ela og Palestínu­manna á ein­um degi og í gær frá ár­inu 2014. Yfir 2.400 eru særðir. Meðal þeirra látnu eru átta börn yngri en 16 ára. 

Bresk stjórnvöld ítrekuðu þó að þau styddu tveggja ríkja lausn á deilunni og að þau væru ekki hlynnt flutningi á sendiráði Bandaríkjanna frá Tel Aviv til Jerúsalem, sem átti sér stað í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert