Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, hefur samþykkt að mæta á fund þingmanna Evrópuþingsins til að svara spurningum þeirra um notkun á persónuupplýsingum notenda samfélagsmiðilsins.
Þingmenn ESB og breska þingsins hafa þrýst á Zuckerberg að sitja fyrir svörum í kjölfar hneykslismálsins sem varð er fjölmiðlar greindu frá því að fyrirtækið Cambridge Analytica hefði nýtt persónuupplýsingar Facebook notenda til að aðstoða Donald Trump við að hafa sigur í bandarísku forsetakosningunum.
Þingmenn hafa „samþykkt að Mark Zuckerberg komi og skýri betur mál í tengslum við notkun persónuupplýsinga á fundi með fulltrúum Evrópuþingsins,“ sagði í yfirlýsingu frá Antonio Tajani, forseta Evrópuþingsins. Segir hann fundinn kunna að eiga sér stað strax í næstu viku.