Ebólu-faraldurinn sem nú hefur brotist út í Austur-Kongó er ekki lengur bundinn við dreifbýli. Heilbrigðisráðuneyti landsins hefur nú staðfest að fyrstu tilfellin í borginni Mbandaka hafi komið upp í byrjun maí. Borgin er miðstöð viðskipta og þaðan liggja vegir til höfuðborgarinnar Kinshasa.
Að minnsta kosti 43 hafa sýkst af ebólu í Austur-Kongó og 23 hafa látist úr sjúkdómnum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að ebólutilfelli hafi greinst í þremur heilbrigðisumdæmum landsins. Stofnunin segir að heilbrigðisstarfsmenn hafi borið kennsl á um 430 af um 4.000 manns sem taldir eru hafa komist í snertingu við sjúkdóminn með einum eða öðrum hætti.
Ekkert bóluefni gegn ebólu er enn á markaði en lyf sem framleitt er af Merck gaf góða raun í tilraunum sem gerðar voru er ebóla braust út í Vestur-Afríku. Bóluefni þetta þarf að geyma í miklum kulda eða í um 60-80 gráða frosti. Rafmagn er af skornum skammti og óáreiðanlegt í Austur-Kongó, er bent á í frétt BBC um faraldurinn.
Á árunum 2014 til 2016 létust um 11.300 manns úr ebólu í Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne.