Allir biskupar Chile senda páfa afsögn

Frans páfi hét því í gær að breytingar yrðu gerðar …
Frans páfi hét því í gær að breytingar yrðu gerðar á kaþólsku kirkjunni í Chile og að réttlæti yrði komið á á ný. AFP

Allir kaþólskir biskupar í Chile afhentu í dag Vatíkaninu afsagnarbréf sín vegna barnaníðingsmáls tengdu kaþólsku kirkjunni í landinu. Var þetta ákvörðun biskupanna 34 eftir nokkurra daga stíf fundarhöld með Frans páfa.

Segir í yfirlýsingu biskupanna að þeir hafi sent kirkjunni afsagnarbréf sín svo „hinum helga föður sé frjáls til að taka ákvörðun varðandi hvern og einn okkar,“ segir í bréfinu.

„Við biðjumst fyrirgefningar á sársaukanum sem þetta olli fórnarlömbunum. Við biðjum líka páfa og fólk Guðs og land okkar fyrirgefningar á þeim alvarlegu mistökum og vanrækslu sem við erum sekir um.“

Frans páfi boðaði biskupana í Vatíkanið á sinn fund vegna málsins, sem hefur varpað skugga á setu hans á páfastóli. Nokkrir hátt settir einstaklingar í kaþólsku kirkjunni í Chile eru sakaðar um að hafa hunsað ásakanir fórnarlamba barnaníðs og fyrir að hafa reynt að fela barnaníð chileska prestsins Fernando Karadima á níunda og tíunda áratug síðustu aldar.

„Við þökkum fórnarlömbunum þrautseigjuna og hugrekkið sem þau sýndu þrátt fyrir verulega mikla persónulega og andlega erfiðleika, sem og fjölskyldu erfiðleika sem við bættist síðan oft skilningsleysi og árásir kirkjunnar“ segir í yfirlýsingunni.

Frans páfi hét því í gær að breytingar yrðu gerðar á kaþólsku kirkjunni í Chile og að réttlæti yrði komið á á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert